Almennar fréttir / 8. júní 2012

Verðbil í hlutafjárútboði Regins hf. ákveðið

Landsbankinn hefur ákveðið að bjóða til sölu allt að 75% hlutafjár í fasteignafélaginu Reginn hf. í hlutafjárútboði sem fer fram dagana 18. og 19. júní 2012. Stefnt er að skráningu Regins á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphallar Íslands) í kjölfar útboðsins. Megin markmið Landsbankans með útboðinu er að Reginn uppfylli skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutafjár og að almenningur jafnt og fagfjárfestar eignist hlut í félaginu.

Verðbil í útboðinu hefur verið ákveðið og verður það 8,1 – 11,9 krónur á hlut. Þetta samsvarar því að markaðsverðmæti alls hlutafjár Regins sé á bilinu 10,5 – 15,5 milljarðar króna. Þetta er lækkun frá því sem áður hefur verið kynnt, en þá var markaðsverðmæti alls hlutafjár á bilinu 14,2 – 18,3 milljarðar króna.

Lækkunin er ákveðin til að tryggja farsæla skráningu Regins hf. og stuðla að þátttöku almennings og fjárfesta í uppbyggingu íslensks hlutabréfamarkaðar.

Landsbankinn áfram hluthafi í Regin hf.

Landsbankinn hefur einnig ákveðið að halda eftir 25% eignarhlut í Regin og skuldbindur sig til þess að selja þann eignarhlut ekki í 10 mánuði eftir skráningu í Kauphöll. Með því vill bankinn undirstrika að hann hefur mikla trú á félaginu og framtíð þess.

Fyrirkomulag útboðsins

Útboðið er tvískipt og býður Landsbankinn til sölu 975.000.000 hluti eða sem nemur 75% af útgefnum hlutum í Regin hf.:

  • Í tilboðsbók, þar sem kauptilboð skal vera að lágmarki 50 milljónir króna, eru til sölu 633.750.000 hlutir eða 48,75% af heildarhlutafé.
  • Í áskriftarhluta er tekið við kauptilboðum sem numið geta á bilinu 100.000 – 49.999.999 krónur. Í þeim hluta eru til sölu 341.250.000 hlutir eða 26,25% af heildarhlutafé Regins.

Útboðið hefst kl. 10:00 þann 18. júní 2012 og lýkur kl. 16:00 þann 19. júní 2012. Ekki er tekið við áskriftum utan þessa tímabils.

Útboðið er markaðssett á Íslandi og skilyrði fyrir þátttöku í útboðinu er að kaupendur hafi íslenska kennitölu og séu fjárráða.

Landsbankinn mun falla frá útboðinu ef eftirspurn í útboðinu verður ekki nægjanleg til að ná megin markmiði útboðsins varðandi dreifingu hlutafjár eða ef ekki næst að selja yfir 50% af heildarhlutafé félagsins.
Lýsing verður birt þann 11. júní 2012 á vef Regins, www.reginn.is og á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is. Prentuð eintök af lýsingunni má nálgast í höfuðstöðvum Regins að Hagasmára 1, 201 Kópavogi.


Annað fréttnæmt

19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.
12. mar.

16 ný hleðslustæði fyrir rafbíla við Smáralind

Nýlega var 16 hleðslustæðum fyrir rafbíla bætt við á bílastæðaplanið sunnan megin við Smáralind. Þessi stæði bætast við þau 16 stæði sem nú þegar má finna norðan megin við húsið.
07. mar.

Aðalfundur 12. mars 2024

Aðalfundur Regins hf. verður haldinn í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, í Kaldalón fundarsal, Austurbakka 2, 101 Reykjavík, þriðjudaginn 12. mars 2024, kl. 16:00.