Almennar fréttir / 14. febrúar 2012

Skemmtigarður í Smáralind

„Hérna verður tívolí innanhúss með um 90 mismunandi leiktækjum,“ segir Eyþór Guðjónsson, framkvæmdastjóri skemmtigarðsins sem verið er að útbúa þar sem áður var Vetrargarðurinn í verslunarmiðstöðinni Smáralind í Kópavogi, en gert er ráð fyrir að staðurinn verði opnaður í nóvember.

Undirbúningur vegna verkefnisins hófst fyrir um þremur árum, en framkvæmdir byrjuðu í sumar. Húsnæðið er skammt frá veitingastöðum og bíóinu, um 2.000 fermetrar á tveimur hæðum og er hannað af alþjóðlega hönnunarfyrirtækinu KCC. Eyþór bendir á að KCC hafi meðal annars hannað skemmtigarð í verslunarmiðstöð í Moskvu, sem var valinn sá besti í heimi 2010. „Við höfðum þann skemmtigarð að fyrirmynd og tókum það besta frá honum. Mikið hefur verið lagt í skemmtigarðinn og boðið verður upp á afþreyingu fyrir alla aldurshópa.“

Eins og frumskógur

Skemmtigarðurinn er hugsaður þannig að gengið er inn í frumskóg og þá blasa við alls konar dýr og fleira. Fyrirtæki í Kína, sem m.a. framleiðir leikmyndir fyrir Walt Disney, vinnur nú að gerð leikmyndanna og dýranna ytra en á sama tíma vinna kanadískir listmálarar við að mála frumskóginn á staðnum í Smáralind. Kínversku dýrin, sem búin eru til úr trefjaplasti, verða síðan hengd upp hér og þar í frumskóginum. „Þetta er nútíma Eden,“ segir Eyþór.

Tækin verða misjöfn að stærð og gerð, frá litlum leiktækjum upp í svonefnda sleggju, sem fer með fólk í nokkurs konar rússíbanareið upp í um 13 metra hæð. Klessubílarnir verða á sínum stað, fallturn og fleira. „Við verðum með öll nýjustu og vinsælustu tækin,“ segir Eyþór.

Að fyrirtækinu standa fjórar fjölskyldur sem samtals eiga yfir 20 börn og barnabörn. „Við sáum að svona afþreyingu vantaði hérlendis,“ segir Eyþór og leggur áherslu á að rýmið í Smáralind passi sérstaklega fyrir svona skemmtigarð, það sé hvorki of lítið né of stórt. Hann bætir við að um 60 manns muni starfa í fyrirtækinu og kveður það ánægjulegt að geta skapað vinnu fyrir fólkið í landinu.

Annað fréttnæmt

19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.
12. mar.

16 ný hleðslustæði fyrir rafbíla við Smáralind

Nýlega var 16 hleðslustæðum fyrir rafbíla bætt við á bílastæðaplanið sunnan megin við Smáralind. Þessi stæði bætast við þau 16 stæði sem nú þegar má finna norðan megin við húsið.
07. mar.

Aðalfundur 12. mars 2024

Aðalfundur Regins hf. verður haldinn í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, í Kaldalón fundarsal, Austurbakka 2, 101 Reykjavík, þriðjudaginn 12. mars 2024, kl. 16:00.