Almennar fréttir / 8. mars 2012

Samkomulag um kaup Búseta á Einholtsreit

Reginn fasteignafélag og Búseti húsnæðissamvinnufélag hafa náð samkomulagi um kaup Búseta á svokölluðum Einholtsreit, sem eru lóðir og fasteignir við Þverholt 15 – 21 og Háteigsveg 7. Búseti áformar byggingu íbúða á reitnum sem verða seldar í formi búseturéttar en það felur í sér öruggt húsnæði fyrir væntanlega kaupendur.

Reiturinn var boðinn út í október 2011 og annaðist verkfræðistofan VSÓ útboðið fyrir Reginn hf. Við opnun tilboða var ljóst að áhugi á reitnum var mikill og bárust 9 samstarfstilboð og 3 kauptilboð. Að lokinni yfirferð tilboða og fundum Regins með hæstbjóðendum var ljóst að kauptilboð Búseta var hagstæðast. Því var ákveðið að ganga til viðræðna við Búseta og hafa samningaviðræður staðið yfir frá því í nóvember.

Ef fjármögnun og framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun munu fyrstu íbúarnir geta flutt inn árið 2014. Á næstunni mun mótun skipulags í samvinnu við íbúa í nágrenninu og skipulagsyfirvöld í Reykjavík hefjast. Áætlanir Búseta gera ráð fyrir mun minna byggingamagni og nýtingarhlutfalli heldur en fyrra skipulag sagði til um. Búseti leggur áherslu á að vinna að nýju deiliskipulagi sé unnin í góðri sátt við íbúasamtök. Nýbyggingarnar munu taka mið af aðliggjandi umhverfi og yfirbragði nærliggjandi hverfa. Áform Búseta á Einholtsreitnum eru uppbygging og rekstur íbúða af fjölbreyttum stærðum og gerðum. Horft er til langs tíma við uppbygginguna sem verði í samvinnu og samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar og vonast er til að hún verði lyftistöng fyrir hverfið í heild sinni.

Ljóst er að margir verða fegnir því að óvissu um framtíð reitsins sé á enda og að hófleg uppbygging komi þar sem verið hefur afgirt ófrágengið framkvæmdasvæði.

Félagar í Búseta eru fjölskyldur í bland við einstaklinga og sýnir nýleg könnun að 94% íbúa í húsnæði Búseta eru ánægðir og mæla með þessu búsetuformi. Búseti er ekki rekinn í hagnaðarskyni heldur í formi samvinnufélags í eigu félagsmanna hverju sinni. Félagið á yfir 700 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.


Annað fréttnæmt

19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.
12. mar.

16 ný hleðslustæði fyrir rafbíla við Smáralind

Nýlega var 16 hleðslustæðum fyrir rafbíla bætt við á bílastæðaplanið sunnan megin við Smáralind. Þessi stæði bætast við þau 16 stæði sem nú þegar má finna norðan megin við húsið.
07. mar.

Aðalfundur 12. mars 2024

Aðalfundur Regins hf. verður haldinn í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, í Kaldalón fundarsal, Austurbakka 2, 101 Reykjavík, þriðjudaginn 12. mars 2024, kl. 16:00.