Almennar fréttir / 20. nóvember 2023

Reginn hagnast um 5,1 milljarð á fyrstu 9 mánuðum ársins 2023 - hagnaður eykst um 10,6%

16. nóvember sl. kynnti Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri Regins níu mánaða uppgjör á rafrænum kynningarfundi sem var sendur út í beinu streymi.

Árshlutareikning, umhverfisuppgjör, tilkynningu um uppgjör, fjárfestakynningu og upptöku af kynningunni má nálgast á vef Regins með því að smella hér.

 

 

 Helstu atriði 9 mánaða uppgjörs:

 

  • Rekstrartekjur voru 10,1 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins og leigutekjur hækka um 14,7% frá fyrra ári.
  • EBITDA nam 6,9 ma.kr. og hækkar um 13,1%.
  • Hagnaður var 5,1 ma.kr. en nam 4,6 ma.kr. á sama tímabili í fyrra.
  • Fjárfestingaeignir eru bókfærðar á 184,4 ma.kr.
  • Hækkun áhættulausra vaxta í september 2023 leiðir til lækkunar á virðismati um tæplega 1,4 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi, en virðismat er jákvætt um 8,7 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins.
  • Handbært fé frá rekstri nam 3,8 ma.kr. og var handbært fé 3,8 ma.kr. í lok tímabils.
  • Vaxtaberandi skuldir eru 115,8 ma.kr. í lok tímabils og hækkuðu um 6,7 ma.kr. frá áramótum.
  • Skuldahlutfall var 63,9% og eiginfjárhlutfall 30,4% í lok tímabils.
  • Hagnaður á hlut fyrir tímabilið nam 2,81 kr. en var 2,54 kr. á sama tíma í fyrra.

Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins:

„Rekstur félagsins er í takt við uppfærða áætlun sem birt var í kynningu á hálfsársuppgjöri. Tekjuvöxtur er 14,7% á fyrstu níu mánuðum ársins sem jafngildir 5,3% rauntekjuvexti. Útleiguhlutfall er 97,5% sem er sambærilegt og verið hefur. Um 45% af tekjum félagsins koma frá opinberum aðilum annars vegar
og skráðum fyrirtækjum hins vegar. Vanskil leigutaka eru lág og mörg útleiguverkefni í burðarliðnum. Þrjú þróunarverkefni fara í útleigu á næstu misserum.

Sunnuhlíð 12 á Akureyri sem er nýr heilsutengdur þjónustukjarni, Eignarhluti Regins er samtals um 4.700 m2 og þar af eru um 4.070 m2 af nýjum eða endurbyggðum rýmum. Nú þegar hafa um 2/3 rýmisins verið leigðir út, þar af 1.840 m2 fyrir heilsugæslustöð, 570 m2 undir sjúkraþjálfun og 250 m2 undir lyfjaverslun. Á þriðju hæð í Smáralind er unnið að um 3.000 m2 hágæða skrifstofurými, þar af um 1.000 m2 í fyrsta áfanga sem tilbúinn verður nú um áramót. Að auki eru fyrstu leigutakar að taka við verslunarrýmum í Smárabyggð, samtals um 1.850 m2 af nýjum verslunar- og þjónusturýmum við Sunnu- og Silfursmára í Kópavogi. Höfðatorg er í fullri útleigu og þróun Hafnartorgs hefur verið jákvæð á tímabilinu þar sem leigutekjur svæðisins hafa tvöfaldast frá sama tímabili í fyrra.

Það er markmið félagins að breið sátt náist um yfirtökutilboð í Eik fasteignafélag hf. og tilboðsfrestur hefur verið framlengdur til 11. desember næstkomandi. Þann 2. nóvember síðastliðinn tilkynnti
Samkeppniseftirlitið um frekari rannsókn á samkeppnislegum áhrifum samrunans og hefur málið verið fært í fasa II.“


Annað fréttnæmt

20. nóv.

HSN flytur í Sunnuhlíð um áramót

Framkvæmdir við nýja heilsugæslu í Sunnuhlíð á Akureyri ganga vel og mun Heilbrigðisstofnun Norðurlands flytja í húsnæðið upp úr áramótum. Enn eru nokkur laus rými til ráðstöfunar og áfram er sérstök áhersla lögð á að bæta við rekstraraðilum í heilsutengdri þjónustu og verslun.
17. nóv.

Landsvirkjun flytur í Höfðatorgsturninn

Mikill áhugi hefur verið meðal fyrirtækja að vera með aðsetur í Höfðatorgsturninum í Katrínartúni 2. Í maí sl. var ritað undir grænan leigusamning við Landsvirkjun fyrir um 4.500 m2 í húsinu og mun starfsemi þeirra dreifast á fimm hæðir.
17. nóv.

30% landsmanna heimsækja fjölsóttustu kjarna Regins á einni viku

Hjá Regin leggjum við áherslu á að móta eftirsótta blöndu innan skilgreindra kjarna þar sem fólk getur lifað, leikið og starfað. Við trúum því að vönduð og fjölbreytt þjónusta innan slíkra kjarna skapi aðstæður fyrir viðskiptavini okkar til að dafna og auki ánægju viðskiptavina þeirra, íbúa og starfsfólks í nágrenni þeirra