Almennar fréttir / 1. júní 2012

Landsbankinn býður allt hlutafé sitt í Regin til sölu

Landsbankinn hf. hefur ákveðið að bjóða allt hlutafé sitt í fasteignafélaginu Reginn hf. til sölu. Stjórn Regins hf. hefur því óskað eftir því að NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöllin) taki öll hlutabréf í félaginu til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar í kjölfar hlutafjárútboðs sem fram fer dagana 18. og 19. júní n.k.

 Fyrirtækjaráðgjöf og Markaðsviðskipti Landsbankans munu hafa umsjón með útboðinu sem opið verður fjárfestum og almenningi. Þegar er hafin kynning á Reginn hf. meðal fjárfesta og einnig hefur félagið birt á vefsíðu sinni, reginn.is, viðamiklar upplýsingar um rekstur og afkomu.

 Jafnframt verður í tengslum við útboðið og skráningu Regins í Kauphöllina gefin út lýsing og hún birt á vefsíðu Regins og Landsbankans í síðasta lagi 11. júní nk.

 Markmið Landsbankans með hlutafjárútboðinu er annarsvegar að uppfylla skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutafjár og hinsvegar að fá að félaginu öfluga hluthafa sem geta stutt við það til framtíðar.

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans:

Við höfum lagt mikla áherslu á að selja frá bankanum eignir í óskyldum rekstri. Með því að skrá Regin hf. á hlutabréfamarkað náum við því markmiði um leið og skráningin verður til að fjölga möguleikum fyrir fjárfesta og styðja við endurreisn hlutabréfamarkaðarins. Stjórnendur Regins hf. hafa náð miklum árangri í uppbyggingu og rekstri á undanförnum árum og við teljum félagið tilbúið til skráningar.

Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins:

Á undanförnu ári hefur verið lögð mikil vinna í að undirbúa félagið fyrir skráningu. Eignasafnið er komið í þá mynd sem við höfum stefnt að og byggir einvörðungu á góðum eignum í traustri langtímaleigu. Tekjuflæðið er traust og afkoman hefur verið góð og í samræmi við áætlanir.  Við teljum að með skráningu félagsins opnist sóknarfæri fyrir Reginn og að hér sé um spennandi valkost að ræða fyrir fjárfesta.

Um Regin hf.:

Regin hf. er fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Stærstu eignir félagsins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og  Egilshöll í Grafarvogi. Starfsmenn Regins eru 45.

Annað fréttnæmt

19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.
12. mar.

16 ný hleðslustæði fyrir rafbíla við Smáralind

Nýlega var 16 hleðslustæðum fyrir rafbíla bætt við á bílastæðaplanið sunnan megin við Smáralind. Þessi stæði bætast við þau 16 stæði sem nú þegar má finna norðan megin við húsið.
07. mar.

Aðalfundur 12. mars 2024

Aðalfundur Regins hf. verður haldinn í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, í Kaldalón fundarsal, Austurbakka 2, 101 Reykjavík, þriðjudaginn 12. mars 2024, kl. 16:00.