Almennar fréttir / 31. mars 2023

Halldór Benjamín Þorbergsson ráðinn í starf forstjóra Regins hf.

Gengið hefur verið frá ráðningu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar í starf forstjóra Regins hf.

Halldór Benjamín hefur undanfarin ár gegnt stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins en starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group hf. Halldór Benjamín hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, m.a. sem hagfræðingur og síðar framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Halldór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og er með MBA-gráðu frá Oxford-háskóla.

Halldór Benjamín mun hefja störf sem forstjóri fyrri hluta sumars 2023. Helgi S. Gunnarsson, sem gegnt hefur starfi forstjóra Regins frá stofnun félagsins árið 2009, lætur af störfum á sama tíma en mun verða nýjum forstjóra innan handar fyrst um sinn.

Tómas Kristjánsson, stjórnarformaður Regins: „Stjórn Regins er afar stolt af því að hafa fengið til liðs við félagið öflugan leiðtoga til að leiða áframhaldandi uppbyggingu Regins. Halldór Benjamín hefur í störfum sínum sýnt mikla forystuhæfileika og getu til að leiða vandasöm verkefni til lykta. Hann hefur yfirburðaþekkingu og tengsl í íslensku atvinnulífi sem munu reynast bæði félaginu og viðskiptavinum þess vel. Stjórnin hefur miklar væntingar til Halldórs Benjamíns til að leiða félagið áfram til vaxtar í samræmi við framtíðarsýn þess.“ 

Annað fréttnæmt

20. nóv.

HSN flytur í Sunnuhlíð um áramót

Framkvæmdir við nýja heilsugæslu í Sunnuhlíð á Akureyri ganga vel og mun Heilbrigðisstofnun Norðurlands flytja í húsnæðið upp úr áramótum. Enn eru nokkur laus rými til ráðstöfunar og áfram er sérstök áhersla lögð á að bæta við rekstraraðilum í heilsutengdri þjónustu og verslun.
17. nóv.

Landsvirkjun flytur í Höfðatorgsturninn

Mikill áhugi hefur verið meðal fyrirtækja að vera með aðsetur í Höfðatorgsturninum í Katrínartúni 2. Í maí sl. var ritað undir grænan leigusamning við Landsvirkjun fyrir um 4.500 m2 í húsinu og mun starfsemi þeirra dreifast á fimm hæðir.