Almennar fréttir / 28. júní 2023

Endurnýting í framkvæmdum

Unnið er að endurskipulagingu 3. hæðar í Smáralind en þar verða m.a. skrifstofur Regins og önnur skrifstofurými til útleigu staðsett. Framkvæmdir standa nú yfir en stefnt er á verklok síðari hluta árs.

Við framkvæmdir sem slíkar fellur stundum til efni sem ekki er hægt að nýta í því tiltekna verkefni. Reginn hefur sett upp og tekið í notkun miðlæga geymslu fyrir allt endurnýtanlegt byggingarefni, húsbúnað, tæki og vörur. Þetta efni er síðan hægt að nota í aðrar framkvæmdir, í viðhald eða til endursölu. Allt efni sem flutt er í geymsluna er skráð í gagnagrunn og með því móti hefur framkvæmda- og viðhaldssvið auðveldan aðgang að upplýsingum um hvað sé laust til endurnýtingar hverju sinni.

Að auki er félagið með samning við Efnisveituna sem sérhæfir sig í endursölu á endurnýtanlegu efni. Með þessu framtaki vill félagið stuðla að ábyrgri neyslu og framleiðslu. Í endurskipulagningunni sem nú á sér stað hafa m.a. innréttingar, hurðir, kerfisloftaplötur og hreinlætistæki verið sett í geymslu og skráð til sölu hjá Efnisveitunni og hefur hluti af því nú þegar verið seldur.

Í samræmi við sjálfbærnistefnu Regins og í takt við hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins verður það sem hægt er að endurnýta, nýtt aftur. Til að mynda var haldið til haga allri steinull við niðurrif sem kemur til með að nýtast aftur í uppbyggingu, en áætlað er að um 80% af einangrun í gifsveggjum verði nýtt aftur. Til viðbótar verður efni eins og gipsplötur, lagnastigar, rafmagnssúlur og grindur í kerfisloft endurnýtt. Slík endurnýting er bæði hagkvæm og umhverfisvæn. Allt sem ekki verður hægt að endurnýta er vandlega flokkað fyrir förgun.

 

Annað fréttnæmt

15. maí

Hverfahleðsla við Smáralind

Það gleður okkur að kynna „hverfahleðslu“ við Smáralind. Með henni bjóðum við nágrönnum okkar og öðrum upp á hefðbundna hverfahleðslu frá klukkan 19:00 til 08:00 að morgni þar sem slegið er verulega af mínútugjaldi.
19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.