Lúxusvöruverslunin Collage the Shop opnaði á Hafnartorgi í gær og var haldið glæsilegt opnunarteiti af því tilefni. Verslunin býður upp á fjölbreyttan tískufatnað og fylgihluti fyrir konur frá mörgum af vinsælustu hátískumerkjum heims og má þar nefna Gucci, Saint Laurent, Valentino, Loewe, Burberry, Bottega Veneta, Mulberry, Autry og ReDone jeans.
Alls eru sex Collage the Shop verslanir á Norðurlöndunum fyrir og verslunin á Hafnartorgi því sú sjöunda í röðinni. „Við höfum lengi fylgst með þróun verslunar á Íslandi með það fyrir augum að opna Collage the Shop búð og núna með uppbyggingu Hafnartorgs í miðborg Reykjavíkur skapast einstakt tækifæri til að bjóða Íslendingum jafnt sem erlendum gestum aðgang að sumum af vinsælustu hátískuvörumerkjum heims“ segir Thomas Møller, forstjóri Group 88.
Collage the Shop er hluti af fjölskyldufyrirtækinu Group 88 sem hefur verið leiðandi einkasölusaðili á hátískuvörumerkjum í Skandinavíu síðan 1988 og rekið af dönsku bræðrunum Thomas og Marius Møller. Markmið Collage the Shop er að koma til móts við óskir viðskiptavina um lúxusvörur, innblástur og hágæðaupplifun. Með opnun verslunarinnar í Reykjavík er fyrirtækið að styrkja stöðu sína enn frekar sem einkasöluaðili hátísku á Norðurlöndunum en Group 88 rekur nú fleiri en 30 verslanir í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Gautaborg, Osló, ásamt öðrum borgum. Mikið er lagt upp úr hönnun verslana Collage the Shop og er hönnun nýrrar verslunar í höndum dönsku arkitektastofunnar REINHOLDT // RUD.
Collage the Shop bætist í hóp fjölda vandaðra verslana á Hafnartorgi en þar er nú þegar að finna yfir 30 rekstraraðila og þar á meðal verslanir 66°Norður, Bioeffect, Casa Boutique, Collections, Cos, H&M, H&M Home, GK Reykjavík, Levi‘s, Michelsen 1909, Mikado, Optical Studio og The North Face. Núna í júní opna einnig á Hafnartorgi glæsileg ljósmyndagallerí, annarsvegar ljómsyndagallerí sem heimsþekktu ljósmyndararnir Chris Burkard og Benjamin Hardman standa að í samstarfi við 66°norður og Brauð & co og svo ljósmyndagalleríið Iurie fine art í eigu annars heimsþekkts ljósmyndara, Iurie Belegurschi. Collage the Shop er staðsett við Geirsgötu á Hafnartorgi, beint á móti Hafnartorgi Gallery.

Sjálfbærnidagur Landsbankans 2023

Reginn hagnast um 6,1 milljarð á fyrri árshelmingi - hagnaður jókst um 66%
