Starfsemi
2021

Stefnumótun í takt við þróun á markaði

Reginn leggur áherslu á að þétta og styrkja eignasafn sitt og vinnur að því að efla þá kjarna sem eru innan eignasafnsins sem og að hasla sér völl í nýjum kjörnum. Dæmi um kjarna sem horft er til eru miðbær Reykjavíkur, Borgartúnssvæði, Smáralindarsvæði og hverfiskjarnar í Garðabæ og Hafnarfirði.

Nú þegar eru um 68% af virði eignasafns félagsins staðsett í þeim kjörnum sem skilgreindir hafa verið en félagið hefur verið að selja frá sér stakar eignir undanfarin ár til að þétta eignasafn sitt innan skilgreindra kjarna. Þróun eignasafns félagsins í þessa átt er m.a. hugsuð til að koma til móts við breytt viðhorf samfélagsins, nýja kynslóð neytenda, þéttingu byggðar, breyttar samgöngur og kröfur um sjálfbærni til virðisauka fyrir samfélagið, viðskiptavini og fjárfesta. Leitast verður við að móta aðlaðandi umhverfi og eftirsótta blöndu innan kjarna fyrir atvinnustarfsemi, þjónustu, menntun, búsetu og afþreyingu þar sem notendur geta lifað, leikið og starfað.

Eignasafni félagsins er skipt í þrjá meginflokka út frá eðli starfsemi viðskiptavina. Þessar einingar eru: Samstarfs- og leiguverkefni með opinberum aðilum, Verslun og þjónusta og Atvinnuhúsnæði og almennur markaður.

Dæmi um eignir innan þessara afkomueininga:

  • Samstarfs- og leiguverkefni með opinberum aðilum: Knatthöllin í Egilshöll, skólar og leikskólar, skrifstofueiningar í leigu til opinberra aðila, rannsóknar- og geymsluhúsnæði, vörugeymslur, íþróttahús, gistiheimili o.s.frv.
  • Verslun og þjónusta: Smáralind, Hafnartorg, Kvikmyndahöllin í Egilshöll, Garðatorg, Litlatún, Hólagarður o.s.frv.
  • Atvinnuhúsnæði og almennur markaður: Skrifstofur, hótel, gistiheimili, iðnaðar-, lager- og geymsluhúsnæði.

Hver eining er undir stjórn framkvæmdastjóra sem hefur það hlutverk að byggja upp og viðhalda sérþekkingu á viðkomandi sviði. Hver eining er sérstök afkomueining. Með aukinni sérhæfingu og þekkingu getur félagið betur veitt viðskiptavinum sínum þær sérlausnir sem þörf er á og þannig stuðlað að virðisauka fyrir viðskiptavini og félagið.

 

 

Verslun og þjónusta

Verslun og þjónusta

Eignasafn Regins í verslun og þjónustu telur yfir 130 þúsund fermetra eða um þriðjung af eignasafni félagsins. Leigutakar í verslun og þjónustu eru um 190 talsins. Stærstu leigutakar á sviðinu eru Hagar, H&M og Húsasmiðjan og standa tíu stærstu undir um 40% af leigutekjum sviðsins.

Hjá Regin starfar sérhæft teymi á sviði verslunar og þjónustu sem er skipað starfsfólki sem hefur mikla reynslu af fasteignaþróun, útleigu og fasteignarekstri sem og rekstri verslana og veitingastaða. Þekking teymisins og náið samstarf við viðskiptavini félagsins er mikilvæg til að skilja betur þróun á sviði verslunar og styðja þannig viðskiptavini við að mæta samkeppnisumhverfi sem breytist ört.

Mikill uppgangur hefur verið í verslun á Íslandi undanfarin tvö ár. Þrátt fyrir aukna samkeppni frá netverslun, bæði innlendri og erlendri, hefur innlend verslun styrkst verulega í sessi. Í Smáralind jókst velta rekstraraðila 2021 m.v. 2019 um 30% og á Hafnartorgi nam aukningin um 66%. Víða erlendis má sjá sömu þróun eiga sér stað. Vel staðsettar og nútímalegar verslunarmiðstöðvar eru eftirsóttar hjá alþjóðlegum vörumerkjum og hverfiskjarnar með réttri samsetningu verslunar og þjónustu eru jafnframt í mikilli sókn. Í stórborgum hefur það helst verið miðborgarverslun sem hefur gefið eftir á tímum COVID, samhliða fækkun ferðamanna en reynslan sýndi að þegar höftum var létt var ferðageirinn fljótur að taka við sér með tilheyrandi aukningu í miðbæjarverslun og veitingastarfsemi.

Þrátt fyrir mikla aukningu í netverslun undanfarin tvö ár, jafnt á Íslandi og á sambærilegum markaðssvæðum, er hlutfall netverslunar á Íslandi og t.d. í Noregi enn sem komið er um 7% af heildarverslun. Þrátt fyrir að hlutfall netverslunar muni halda áfram að vaxa mun hefðbundin verslun samt sem áður áfram vera langstærsti hluti verslunar. Í norskri spá er gert ráð fyrir 10% árlegum vexti netverslunar til ársins 2030 en þrátt fyrir það verði hlutfall netverslunar á þeim tímapunkti einungis 13%. Ef þetta er heimfært yfir á íslenskan markað, þar sem markaðsaðstæður eru að mörgu leyti svipaðar hvað varðar fjarlægðir og bílaaðgengi, mun netverslun vaxa árlega um 10% og í heildina um 56 ma.kr. á næstu 9 árum og verða 93 ma.kr. eða 13% af heildarverslun 2030. Til samanburðar, m.v. 2,5% árlegan vöxt mun hefðbundin verslun vaxa um 135 ma.kr. og verða 625 ma.kr. árið 2030.

Náið samspil hefðbundinnar verslunar og netverslunar er sífellt að koma betur í ljós. Vörumerki sem upphaflega voru eingöngu til sölu á netinu eru farin að opna hefðbundnar verslanir, t.d. Amazon, Nespresso, Warby Parker, Allbirds og Everlane. Margar ástæður búa þar að baki, en sú stærsta er áhersla fyrirtækja á að byggja upp sterk vörumerki með sérstöðu. Það er hægt að gera með mun árangursríkari hætti í hefðbundnum verslunum þar sem mögulegt er að búa til heim vörumerkisins með innanhússhönnun, upplifun, lýsingu, lykt, þjónustu og ráðgjöf. Auk þess er vel staðsett og glæsileg verslun, nálægt öðrum þekktum vörumerkjum, góð leið til að grípa athygli nýrra kaupenda og því dýrmæt leið til markaðssetningar í heimi þar sem sífellt erfiðara er að ná til neytenda samhliða sífellt auknu framboði fjölmiðla og samfélagsmiðla.

Þessi viðsnúningur í áhuga á verslunarhúsnæði sést í útleiguhlutfalli Regins á sviði verslunar sem var í árslok 98%. Í raun má segja að eina verslunarhúsnæðið sem var þá laust hafi verið þróunarverkefni í vinnslu eins og hluti Hafnartorgs sem stefnt er á að opni síðar á árinu og er að stærstum hluta útleigt.

Fasteignir eru lykilatriði þegar kemur að verslun og þjónustu. Þar skipta máli eiginleikar eins og staðsetning, samgöngur, aðgengi og gæði rýma eins og gluggastærð og gerð, lofthæð, sveigjanleiki rýmis og nýting þess. Ólíkt flestum öðrum flokkum atvinnuhúsnæðis skiptir miklu máli fyrir verslun og þjónustu að nærliggjandi verslanir styðji hver aðra og er því samsetning leigutaka á sama svæði mjög mikilvæg. Samhliða kjarnastefnu Regins hefur félagið selt frá sér stök verslunarrými en á móti fjárfest í verslunarsvæðum eins og Garðatorgi og Hafnartorgi þar sem öll verslunarrými eru á hendi Regins og þar með hægt með skipulögðum hætti að tryggja fjölbreytta verslun og þjónustu í takt við þarfir fólks sem býr og starfar í nálægum hverfum.

Rúmlega 70% af eignasafni Regins í verslun og þjónustu eru staðsett í kjörnum félagsins sem þýðir að á þeim svæðum er þétt og fjölbreytt byggð. Aukinn þéttleiki og fjölbreytt byggð styðja við verslun þar sem íbúar, starfsfólk, viðskiptavinir og jafnvel ferðamenn á kjarnasvæðum velja oftar en ekki að sækja verslun og þjónustu á svæðum nálægt vinnustað eða heimili. Kjarnar Regins eru vel staðsettir við helstu samgönguæðar og fyrirhugaða Borgarlínu. Sem dæmi eru 95% af verslunarrými Regins í innan við fimm mínútna göngufjarlægð frá fyrirhugaðri Borgarlínu en fyrirsjáanlegt er að verslunarsvæði við Borgarlínur muni styrkjast þegar líður á áratuginn.

Smáralind – uppseld á metári

Smáralind átti 20 ára afmæli í október sl. og var haldið upp á áfangann með veglegri afmælishátíð. Það er skemmtileg tilviljun að velta rekstraraðila í Smáralind jókst um 20% á afmælisárinu m.v. fyrra ár sem er einstakur árangur og lýsir sterkri markaðsstöðu hússins og þeirra verslana sem þar eru. Útleiguhlutfallið var 99% í árslok 2021 og er nú þegar búið að gera leigusamninga um þau þrjú bil sem laus eru og opna þær verslanir í vor. Þar með verður Smáralind 100% útleigð og er það ánægjuleg uppskera þeirrar vinnu og fjárfestingar sem búið er að kosta til undanfarin ár við endurskipulagningu hússins.

Á afmælisárinu opnuðu fjórar nýjar verslanir í húsinu, Epal, Snúran, Elíra og Kúltúr menn auk þess sem Líf og list stækkaði verslun sína umtalsvert og verslanirnar Steinar Waage og Galleri 17 fluttu á nýja staði í húsinu í nýuppgerðum rýmum.

Ýmislegt annað var gert á afmælisárinu til að styrkja stöðu hússins enn frekar og má nefna að glæsilegar hjólageymslur fyrir viðskiptavini og starfsfólk voru opnaðar í ársbyrjun auk þess sem hleðslustöðvum fyrir rafbíla var fjölgað. Þessi skref eru hluti af grænni vegferð Regins og næst á dagskrá í þeim efnum er að stórbæta sorpflokkun í húsinu með fjárfestingu og innleiðingu á Snjallsorpi sem mun gera rekstraraðilum kleift að flokka enn betur og fá rauntímaupplýsingar um sorpmagn sem til fellur frá starfseminni sem og flokkunarhlutfallið. Þar með fá rekstraraðilar upplýsingar til að setja sér markmið um aukna sorpflokkun og tól til að fylgjast með árangrinum.

Í janúar 2022 fékk Smáralind viðurkenningu frá Íslensku ánægjuvoginni fyrir að mælast efst í flokki verslunarmiðstöðva annað árið í röð. Það var eitt af lykilmarkmiðum Smáralindar 2021 að fá þessi verðlaun í annað skipti í röð og því ánægjulegt að markmiðinu skyldi náð. Þessi árangur er ekki tilviljun þar sem húsið er að miklu leyti nýuppgert auk þess sem sérstök áhersla var lögð á þjónustuupplifun á árinu, m.a. með Smáralindarskólanum sem Reginn bauð starfsfólki rekstraraðila í Smáralind aðgang að. Skólinn var settur upp í samvinnu við Akademias og var vel sóttur af starfsfólki rekstraraðila.

Þrátt fyrir að 5 ára endurskipulagningu á verslunarhluta Smáralindar sé lokið eru næg tækifæri í húsinu og á svæðinu til að styrkja það enn frekar sem einstakan áfangastað þegar kemur að verslun, afþreyingu og upplifun. Hönnun á endurbættu umhverfi afþreyingar er í farvegi auk þess sem skrifstofur á þriðju hæð Smáralindar verða endurbættar og stækkaðar. Uppbygging í nærumhverfi Smáralindar, t.d. í 201 Smára gengur vel, þar er búið að flytja inn í 213 íbúðir og búið að selja 84 íbúðir til viðbótar. Framkvæmdum á svæðinu lýkur árið 2024 og þá verða íbúar þessa nýja hverfis um 2.000 talsins sem mun styrkja rekstrargrundvöll Smáralindar enn frekar. 

Hafnartorg – nýr borgarkjarni við höfnina

Mikilvægir áfangar náðust á árinu við lokahluta uppbyggingar Hafnartorgs, m.a. með opnun á stórglæsilegu fimm stjörnu, 250 herbergja, Reykjavík Edition hótelinu sem rekið er af stærstu hótelkeðju heims, Marriott.

Á rúmlega 20 ára uppbyggingartímabili svæðisins hafa hátt í 100 þúsund fermetrar verið byggðir. Svæðið er nýr borgarkjarni sem myndar nýtt hjarta við höfnina í miðbæ Reykjavíkur. Á svæðinu fer saman nútímaleg borgarhönnun, vandað húsnæði og blönduð starfsemi sem styður við iðandi mannlíf íbúa, skrifstofufólks, ferðamanna og höfuðborgarbúa í leit að upplifun á sviði menningar, verslunar og veitinga. Fjárfesting á svæðinu nemur hátt í 100 milljörðum og verður svæðið fullbyggt í árslok 2022 þegar Landsbankinn opnar þar nýjar höfuðstöðvar sínar.

Heilt yfir styrktist rekstur á Hafnartorgi á árinu og nam veltuaukning rekstraraðila á svæðinu 31% og var aukningin mest yfir sumarið þegar ferðamenn sóttu landið og eins fyrir jólin og því ljóst að svæðið er að verða mikilvægur hluti af jólaverslun Íslendinga.

Hafnartorg var miðpunktur Hönnunarmars þar sem ýmsir viðburðir fóru fram. Hönnunarfyrirtækið Fólk var með tímabundið aðsetur á svæðinu með skemmtilega blöndu af verslun og hönnunarrými. Sem fyrr voru listasýningar á svæðinu, m.a. ljósmyndasýning Sigurjóns Sighvatssonar sem um eitt þúsund manns sóttu undir loks ársins. Aðsókn að bílakjallara Hafnartorgs, sem núna tengist bílastæðakjallara Hörpu, jókst til muna á árinu og ljóst er að þessi 1.100 bílastæði sem eru undir Hafnartorgi eru gott akkeri fyrir svæðið.

Eins og áður hefur komið fram lýkur uppbyggingu Hafnartorgs á árinu 2022. Fyrir sumarið munu verslanir og veitingastaðir opna í rýmum í eigu Regins norðan Geirsgötu og miðar framkvæmdum og útleigu vel.

Hverfiskjarnar - aðgengileg nærþjónusta

Annað árið í röð var rekstrarumhverfi fyrir hverfiskjarna hagfellt. Með fjölbreytta samsetningu af verslun og þjónustu höfðuðu þeir til íbúa í nærliggjandi hverfum þar sem samkomutakmarkanir drógu mikið úr akstri á höfuðborgarsvæðinu á meðan stór hluti íbúa vann og lærði heima. Það felst margvísleg hagræðing í því að geta keypt helstu nauðsynjar nálægt heimilinu, sparar bæði tíma og kostnað. Það er auk þess þægilegt og umhverfisvænt þar sem það dregur úr akstri og gerir fleirum kleift að kjósa bíllausan lífsstíl með því að sinna helstu erindum í göngu- eða hjólafæri.

Til viðbótar við Hafnartorg á Reginn nokkra hverfiskjarna eins og Litlatún í Garðabæ, Hólagarð í Breiðholti og Vínlandsleið í Grafarholti. Útleiguhlutfall var 100% í þeim öllum í árslok sem sýnir styrk þeirra. Í þessum kjörnum er fjölbreytt verslun og þjónusta í boði, t.d. dagvara, gjafavara, byggingavörur, bakarí, ísbúðir, veitingastaðir og fleira. Jafnframt má segja að Höfðatorg, Egilshöll og Hafnartorg veiti mikilvæga hverfisþjónustu eins og veitingaþjónustu og afþreyingu fyrir alla þá sem sækja vinnu, verslun eða afþreyingu í þeim kjörnum.

Sérhæfðar verslanir

Eignasafn Regins í öðrum fasteignum fyrir verslanir og þjónustu er rúmlega 3% af heildar eignasafni félagsins og er dreift víðs vegar um höfuðborgarsvæðið auk eigna á Akureyri og í Reykjanesbæ. Meðal annars er um að ræða eignir í Skútuvogi og Lágmúla, sterkum verslunar- og þjónustusvæðum nálægt helstu stofnleiðum sem þó flokkast ekki undir kjarnasvæði Regins.

Samstarfsverkefni

Samstarfsverkefni

Allt frá því að félagið setti sér það markmið á árinu 2012 að auka verulega hlutfall opinberra aðila í viðskiptavinahópi sínum hafa ríki og sveitarfélög verið ört vaxandi í þeim hópi. Þessi stefnuáhersla átti eftir að reynast félaginu hagfeld því frá þessum tíma hefur hið opinbera stofnað til fjölmargra útboða í húsnæðisöflun. Nú er svo komið að þessi flokkur er einn sá stærsti innan félagsins og verkefnin fjölmörg og virðisaukandi fyrir viðskiptavini okkar og félagið. Á þessu tímabili hefur skapast mikil þekking og reynsla innan félagsins sem snýr að þjónustu og þörfum opinberra aðila sem hefur reynst báðum aðilum vel við samningagerð og rekstur á líftíma leigusamninga. Reynsla félagsins á þessu sviði, þ.e. útleigu og veitingu stoðþjónustu hefur gert það að verkum að félaginu hefur gengið vel í þeim útboðum sem það hefur tekið þátt í. Á síðustu árum hefur einnig verið meiri eftirspurn eftir því að leigusali veiti aukna þjónustu við rekstur húsnæðis sem við köllum stoðþjónustu. Dæmi um vel heppnuð verkefni á þessu sviði eru Egilshöll í Grafarvogi, skólamannvirki í Hafnarfirði, leikskólar í Garðabæ og Hafnarfirði. Á árinu 2021 afhenti Reginn Vegagerðinni nýjar höfuðstöðvar að Suðurhrauni 3 í Garðabæ eftir útboð og allsherjar umbreytingu og viðbyggingu á eigninni.

Með þá áherslu að leiðarljósi að veita opinberum aðilum lausnir í húsnæðismálum og áframhaldandi þróun á þessum eignaflokki hefur Reginn horft til þess húsnæðisflokks sem fyrirséð er að veruleg eftirspurn verði eftir á komandi árum, þ.e. íbúðalausnir fyrir aldraða. Til að hefja þessa vegferð inn í nýjan eignaflokk fjárfesti Reginn í fasteigninni Sóltúni 2 sem hýsir Hjúkrunarheimilið Sóltún og rekið er af félaginu Öldungi. Markmið samstarfsins við Öldung er m.a. að skapa öflugan aðila sem getur tekið þátt í verkefnum á sviði íbúðalausna fyrir ört stækkandi hóp eldri borgara þar á meðal hjúkrunarheimila. Gríðarleg fjárfestingarþörf er fyrirséð í uppbyggingu hjúkrunarheimila á Íslandi og öðrum húsnæðislausnum fyrir eldri borgara á komandi árum og áratugum. Fjárfestingin er fyrsta skrefið í átt að mögulegum fjárfestingum í þessum geira. Uppbygging íbúðalausna fyrir aldraða fellur einnig vel að þeirri stefnu Regins að þróa og fjárfesta í kjörnum og stefnir félagið að því að þess háttar lausnir verði hluti af þeim kjörnum sem félagið mun koma að á komandi árum.

Á árinu 2021 var óskað eftir tilboðum í framtíðarhúsnæði fyrir heilsugæsluna á Akureyri. Reginn bauð tvo kosti og varð lausn félagsins sem felur í sér umbreytingu og viðbyggingu við verslunarkjarnann Sunnuhlíð fyrir valinu. Unnið er að undirbúningi og samningagerð vegna þeirrar uppbyggingar.

Eins og áður segir hefur þessi eigna- og viðskiptavinahópur vaxið mjög hjá félaginu. Í dag er yfir þriðjungur af eignasafni Regins í leigu til opinberra aðila og er stærsti leigutakinn Reykjavíkurborg hvort sem litið er til fermetra eða tekna en um 15% af tekjum Regins koma frá Reykjavíkurborg, annar stærsti leigutaki félagsins er íslenska ríkið með um 12% af heildartekjum. Tekjur frá opinberum aðilum hafa verið að aukast á síðustu árum með nýjum samningum m.a. við Landlækni, Tryggingastofnun, Lögregluna á Suðurnesjum, Geðheilsuteymi austur, Ríkislögreglustjóra, Vegagerð ríkisins o.fl. Tekjur vegna opinberra aðila munu aukast enn frekar á komandi árum þegar ný verkefni s.s. eins og heilsugæslustöðin á Akureyri er komin í notkun.

Atvinnuhúsnæði og almennur markaður

Atvinnuhúsnæði og almennur markaður

Í flokknum Atvinnuhúsnæði og almennur markaður eru um 40% af tekjum og fermetrum eignasafns Regins. Eignasafn Regins í þessum flokki telur alls 59 fasteignir sem eru tæplega 150.000 fermetrar og leigutakar um 230. Staðsetning eigna á þessu sviði er dreifð en stærstu eignir eru Katrínartún 2, Ofanleiti 2, Mjölnisholt 12-14, Hafnarstræti 83-89 og Íshella 8.

Í flokknum Atvinnuhúsnæði og almennur markaður er allt skrifstofuhúsnæði í eignasafni félagsins sem ekki er leigt út til opinberra aðila, skrifstofusetur, iðnaðar-, geymslu- og lagerhúsnæði, auk hótela félagsins. Eignasafnið í þessum starfsþætti er því mjög fjölbreytt og á félagið auðvelt með að bjóða lausnir sem henta fyrirtækjum með ólíkar þarfir sem og að bjóða aðrar lausnir ef þarfir fyrirtækja taka breytingum.

Aukin sérhæfing starfsmanna styður við hlutverk Regins að vera leiðandi aðili í lausnum sem mæta þörfum markaðarins. Á árinu 2021 hefur verið stöðug og nokkuð sterk eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði á almennum markaði og hefur útleiga gengið mjög vel.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir hágæða skrifstofurýmum farið vaxandi. Reginn taldi að sú þróun væri á næsta leiti og brást við með kaupum á hágæða skrifstofubyggingum á Höfðatorgi á árinu 2018 til að mæta þessari fyrirsjáanlegu eftirspurn. Frá þeim tíma hefur eftirspurn eftir húsnæði í meiri gæðum farið vaxandi og gera starfsfólk og fyrirtæki í auknum mæli miklar kröfur til aðstöðu og aðbúnaðar á vinnustöðum. Félagið leggur áherslu á að vera fyrsti kostur þegar fyrirtæki leitar að framtíðarhúsnæði en Reginn hannar, aðlagar og innréttar þúsundir fermetra árlega fyrir vaxandi viðskiptavinahóp félagsins.

Þessi þróun er ekki bara bundin við Ísland. Ef horft er til erlendra greininga hefur samskonar þróun átt sér stað í fleiri löndum. Auknar kröfur, sérstaklega þekkingarfyrirtækja, til skrifstofuhúsnæðis hefur hraðað þessari þróun undanfarin misseri. Nægt framboð hefur verið af skrifstofuhúsnæði á Íslandi en hluti þess er kominn til ára sinna og eðli bygginga ekki í samræmi við nútímakröfur. Hefur það leitt til þess að byggt hefur verið nokkuð af nýju skrifstofuhúsnæði á undanförnum árum. Leiguverð á hágæða skrifstofuhúsnæði hefur því farið hækkandi til að mæta kostnaðarverði nýrra fasteigna eða endurgerðar eldra skrifstofuhúsnæðis. Með áherslu Regins á uppbyggingu kjarna og nú aukinni þekkingaruppbyggingu í svokölluðum snjallbyggingum, mætir félagið aukinni eftirspurn viðskiptavina um hágæða skrifstofuhúsnæði með gott aðgengi fyrir viðskiptavini og starfsmenn.

Reginn bætti við vöruframboð sitt með því að koma á fót skrifstofusetrum. Skrifstofusetur er lausn sem mætir húsnæðisþörfum minni rekstraraðila, einyrkja eða stærri félaga sem nýta þennan kost sem sveigjanlega viðbót við húsnæðiskost sinn og taka á leigu stakar skrifstofur til skamms eða langs tíma með aukinni þjónustu. Mikil eftirspurn er eftir rýmum á skrifstofusetrum félagsins sem eru í dag þrjú, í Tryggvagötu 11, Katrínartúni 2 og Ármúla 6. Þessi lausn hefur því sannað sig sem viðbót við vöruframboð Regins, sérstaklega meðal minni fyrirtækja og aðila sem þurfa lítil rými. Þessir aðilar hafa síðan tækifæri til að vaxa áfram innan félagsins og leggur félagið áherslu á gott viðskiptasamband og að vera fyrsti kostur þegar þeir leita sér að stærra húsnæði. Niðurstöður ánægjukönnunar meðal viðskiptavina félagsins leiddu í ljós að þessi hópur er meðal þeirra ánægðustu í hópi viðskiptavina félagsins.

Skrifstofuhúsnæði

Skrifstofuhúsnæði í útleigu til einkaaðila nemur rúmlega 20% af tekjum og fermetrum í samstæðu Regins. Stærsti hluti eigna í þessum flokki er á höfuðborgarsvæðinu, en þær er einnig að finna á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Reykjanesbæ og Selfossi. Langstærsti hluti fermetra er í póstnúmerum 105 og 108.

Leigutakar eru um 180 en þeir stærstu eru Kvika banki, Verkís, Árvakur og Landsbankinn.

Iðnaðar-, geymslu- og lagerhúsnæði

Tekjur frá þessum flokki eru tæplega 10% af heildartekjum Regins. Eignir í þessum flokki eru flestar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, stærstur hluti í Molduhrauni í Garðabæ og á Völlum/Hellum í Hafnarfirði.

Leigutakar eru rúmlega 40 og þeir stærstu eru Tempra, Ísafoldarprentsmiðja, Börkur, Distica og Valka.

Hótel

Hótel standa að baki um 8% af heildartekjum Regins en einungis tæplega 5% af heildarfermetrum eignasafnsins. Hótel félagsins eru öll mjög vel staðsett í Reykjavík og á Akureyri. Auk hótelanna fjögurra, Apótek hótels, Hótel Kletts, Hótel Óðinsvéa og Hótel Kea er í eignasafni Regins lúxushótelið Tower Suites sem leigir út 8 svítur á efstu hæð turnsins í Katrínartúni 2.

Stærstu leigutakar eru Keahótel og Hótel Klettur.

Útleiga

Að baki er eitt besta ár félagsins frá upphafi í útleigu sem einkenndist af stöðugri og mikilli eftirspurn. Samtals voru gerðir 129 leigusamningar fyrir 45.240 fermetra og er meðallengd samninga í takt við það sem áður hefur verið, eða um 7-8 ár. Meðal annars voru gerðir stórir samningar við Fly Play, Barnavernd Reykjavíkur, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Kviku banka, S4S, Húsasmiðjuna, Skeljung og Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ).

Eftirspurn hefur verið góð og leiguverð hefur leitað upp á við í öllum flokkum atvinnuhúsnæðis. Útleiga og endurnýjun samninga hefur gengið mjög vel og er svo komið að lítið er um laus rými í safni félagsins og endurspeglar það hátt útleiguhlutfall sem er í dag 98% . Horfur eru góðar fram undan og félagið vel í stakk búið til að hefja enn frekari uppbyggingu eignasafnsins, og mæta þannig auknum kröfum og mikilli eftirspurn markaðarins.

Rekstur fasteigna

Sérhæft rekstrarsvið Regins sér um daglegan rekstur í þriðjungi eignasafnsins ásamt því að sjá um almennt viðhald á öllum fasteignum og vinna að sjálfbærnimarkmiðum félagsins.

Rekstur og skipulag fasteigna hefur umtalsverð áhrif á umhverfi, starfsemi viðskiptavina og lífsgæði fólks en tugir þúsunda manna dvelja daglega í fasteignum Regins við leik og störf. Meira en helmingur starfsmanna félagsins starfar á rekstrarsviði, í höfuðstöðvum og í hinum ýmsu eignum. Starfsfólkið sinnir fjölbreyttum störfum í húsunum og sér til þess að halda daglegum rekstri þeirra gangandi. Á sviðinu starfa m.a. húsa- og húsgagnasmiðir, vélstjórar, þjónustufulltrúar, umsjónarmenn fasteigna, húsverðir, viðskipta-, verk- og tæknifræðingar. Að hafa svið innan félagsins sem sér um rekstur í fasteignunum eykur gæði þjónustunnar og færir félagið nær viðskiptavinum. Nálægðin gerir einnig kleift að hvetja og styðja viðskiptavini á grænni vegferð þeirra. Fjölbreytt störf eru unnin á fjölmörgum stöðum á hverjum degi af starfsfólki Regins og skapar félagið sér sérstöðu meðal íslenskra fasteignafélaga með þessum fjölbreytta rekstri og daglegri aðkomu að honum.

Til viðbótar við eigið starfsfólk hefur félagið gert samninga við fjölda þjónustuverktaka um allt land sem hjálpa til við að halda eignasafninu í góðu ástandi.

Þjónusta við viðskiptavini hefur þróast í gegnum árin. Eftirspurn er eftir aukinni þjónustu við rekstur á húsnæði leigutaka og hefur hún aukist undanfarin ár. Er það félaginu hvatning til áframhaldandi þróunar á framsæknum lausnum.

Framkvæmdir

Árlega fjárfestir Reginn fyrir milljarða í eignasafninu með uppfærslum, séraðlögunum og lausnum fyrir viðskiptavini. Félagið býr því yfir mikilli þekkingu og reynslu á sviði byggingaframkvæmda. Eins og undanfarin ár var mikið um framkvæmdir í eignasafni Regins á árinu 2021.

Stærsta verkefnið fyrri hluta ársins var lokafasi í byggingu höfuðstöðva Vegagerðarinnar að Suðurhrauni 3 sem lauk um mitt ár 2021. Höfuðstöðvar Vegagerðarinnar samanstanda af nýrri 3.500 fermetra skrifstofubyggingu, um 2.500 fermetra eldra geymsluhúsnæði sem var endurbyggt og 9.000 fermetra afgirtu athafnasvæði.

Seinni hluta ársins hófust framkvæmdir við stækkun á leigurými Kviku banka í Katrínartúni 2 þar sem Kvika er að bæta við sig tveimur stórum hæðum auk afgreiðslu á jarðhæð. Þessar framkvæmdir munu breyta nokkuð inngangi Katrínartúns og bæta nýtingu og flæði á fyrstu og annarri hæð turnsins. Áætlað er að þessum framkvæmdum ljúki vorið 2022.

Endurbygging Ármúla 4 og innrétting á skrifstofum Barnaverndar Reykjavíkur í um 1.700 fermetrum fór langt á árinu, fyrirhugað er að Barnavernd taki húsnæðið í notkun í mars 2022.

Vinna við innréttingu mathallar og verslana á Hafnartorgi norðan Geirsgötu hófst á árinu en fyrirhugað er að mathöllin opni á vormánuðum 2022.

Lokafasinn í endurbyggingu og innréttingu Miðhrauns 4 eftir bruna árið 2018 lauk í lok ársins þegar Heimahjúkrun heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins tók í notkun um 700 fermetra skrifstofuhæð, áður var Distica búið að taka í notkun um 2.000 fermetra vörulager í húsinu.

Mörg minni verkefni kláruðust einnig á árinu og má þar m.a. nefna Borg29 mathöll í Borgartúni 29, Kjarna endurhæfingu í Síðumúla 28, Snúruna og S4S í Smáralind og Te og Kaffi á Garðatorgi 4.