Ársskýrsla
2021

Þetta er Reginn

Reginn er brautryðjandi og framsækið fasteignafélag sem er eftirsóttur samstarfsaðili og vinnustaður. Reginn einsetur sér að vera leiðandi í mótun og rekstri fasteigna auk þess að stuðla að velferð samfélags, bættum lífsgæðum og bættu umhverfi íbúa. Með sjálfbærni að leiðarljósi verða til ný viðskiptatækifæri og félagið verður samkeppnishæfara.

Reginn fjárfestir til langs tíma í fasteignum með sérstakri áherslu á vel staðsetta og eftirsótta kjarna þar sem umhverfisleg sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Félagið hefur sett sér stefnu og markmið um skiptingu eignasafnsins eftir staðsetningu, atvinnugreinum og umhverfisvottun fasteigna. Félagið einsetur sér að vera leiðandi í mótun og rekstri fasteigna með markvissum aðgerðum í rekstri þeirra, fjárfestingum, skipulagi, nýbyggingum og samvinnu við leigutaka.

Eignasafn Regins er fjölbreytt og þjónar opinberum aðilum, skráðum félögum, einkafyrirtækjum og einyrkjum. Félagið hefur komið að fjölda verkefna með viðskiptavinum þar sem tilteknar fasteignir eða tiltekin rými eru sérstaklega hönnuð og útfærð með starfsemi viðkomandi að leiðarljósi. Félagið er einnig með skrifstofusetur sem styðja við umhverfisvitund og betri nýtingu fjármagns þar sem viðskiptavinir úr ólíkum áttum nýta sameiginlega aðstöðu.

Eignasafnið samanstendur af 110 fasteignum, rúmlega 380 þúsund fermetrar alls og er heildarvirði þess 158 ma.kr.

Sýn Regins

Við erum brautryðjandi í mótun og rekstri fasteigna

Hlutverk

Við sköpum aðlaðandi staði þar sem fólk vill lifa, leika og starfa. Við sköpum virði fyrir viðskiptavini, samfélagið og fjárfesta.

Gildi

  • Lausnamiðuð
  • Ábyrg
  • Snörp

Stefnuáherslur

  • Við setjum viðskiptavininn í öndvegi
  • Við erum framsækin í rekstri
  • Við búum til eftirsótta kjarna
  • Við mótum lausnir með opinberum aðilum

Félagið hefur unnið ötullega að því að styrkja stefnuáherslur sínar á árinu 2021 og var sérstök áhersla lögð á græna- og félagslega vegferð, stafræna þróun og mótun lausna með opinberum aðilum.

 

 

 

Viðskiptavinurinn í öndvegi

Reginn leggur áherslu á að viðhalda traustu sambandi við viðskiptavini sína en í árslok 2021 voru þeir 430 talsins. Öflugt teymi starfsmanna leggur metnað sinn í að þjónusta viðskiptavini á markvissan og faglegan máta. Árið 2019 setti félagið sér sjálfbærnistefnu og hefur síðastliðin ár unnið markvisst að því að innleiða sjálfbærni í sína starfsemi sem og að aðstoða leigutaka við að ná árangri í rekstri þeirra eigna sem þeir leigja hjá félaginu.

Meðal stefnuverkefna félagsins á árinu 2021 var áframhaldandi þróun á Mínum síðum viðskiptavina sem mun verða vettvangur samskipta og upplýsingamiðlunar milli aðila s.s. upplýsingar um orkunotkun, upplýsingar um umfang sorps (Snjallsorp), heimsóknir viðskiptavina í einstakar eignir og almennar upplýsingar um viðskiptasambandið. Undirbúningur að vöktun og stýringu á innivist í leigurýmum hefur átt sér stað á árinu sem er hluti af félagslegri sjálfbærnistefnu Regins og gefur tækifæri til aukinnar þjónustu og ráðgjafar til viðskiptavina.

Í könnun sem gerð var meðal viðskiptavina Regins í lok árs 2021 kemur fram að viðskiptavinir leggja aukna áherslu á að leigusali þeirra sé með sjálfbærnistefnu og að henni sé fylgt eftir. Einnig kom skýrt fram að viðskiptavinir vilja að Reginn komi að fjölgun rafhleðslustöðva sem og bættri aðstöðu fyrir reiðhjól og hlaupahjól. Reginn rekur nú 45 rafhleðslustöðvar og hjólageymslur sem geta geymt yfir 1.000 reiðhjól og stefnir að því að fjölga þeim verulega á næstu árum.