Sjálfbærniskýrsla
2020

Reginn

Reginn er brautryðjandi og framsækið fasteignafélag sem er eftirsóknarverður samstarfsaðili og vinnuveitandi. Félagið einsetur sér að vera leiðandi í mótun og rekstri fasteigna auk þess að stuðla að velferð samfélags, bættum lífsgæðum og umhverfi íbúa. Rekstur og skipulag fasteigna hefur umtalsverð áhrif á umhverfi og lífsgæði íbúa en tugir þúsunda manna dvelja daglega í fasteignum Regins, ýmist við leik eða störf. Með markvissum aðgerðum í rekstri fasteigna, fjárfestingum, skipulagi, nýbyggingum og með samvinnu við leigutaka getur Reginn átt ríkan þátt í móta umhverfi fólks þannig að daglegt líf verði betra, ánægjulegra og öruggara.

Á árinu 2019 mótaði Reginn sér sjálfbærnistefnu sem tekur á umhverfislegri, félagslegri og efnahagslegri sjálfbærni. Samhliða setti félagið sér mælanleg markmið í þessum þremur flokkum sem unnið var að á árinu 2020. Í lok árs 2020 voru markmiðin endurskoðuð með reynslu og árangur ársins til hliðsjónar. Árangur í sjálfbærni verður áfram mældur með markvissum hætti og starfsmenn, viðskiptavinir og fjárfestar upplýstir um markmiðin og þann árangur sem næst. Í fjárfestingum og rekstri fasteigna er horft til langs tíma. Það er trú félagsins að áhersla á sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri félagsins og styrki fjárhagslega arðsemi til lengri tíma litið.

Þau markmið sem félagið leggur lykiláherslu á tengjast umhverfislegri, félagslegri og efnahagslegri sjálfbærni.

Umhverfisleg

Draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda

Minnka notkun á raforku
og heitu vatni

Auka sorpflokkunarhlutfall

Félagsleg

Tryggja öruggt starfsumhverfi
og fækka veikindadögum

Sýna samfélagslega ábyrgð

Jafna laun kynjanna
 

Efnahagsleg

Fjölga BREEAM-
vottuðum eignum

Eiginfjárhlutfall ekki undir 30%

Arðsemi eiginfjár að
jafnaði hærri en 10%

Lögð er áhersla á að samþætta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við rekstur félagsins. Félagið leggur megináherslu á sex markmið sem daglegur rekstur þess hefur mest áhrif á: heilsu og vellíðan, framleiðslu og aðgerðir í loftlagsmálum, jafnrétti kynjanna, sjálfbærar borgir og samfélög, sjálfbæra orku og ábyrga neyslu.

Hér á eftir er gert grein fyrir helstu þáttum umhverfislegrar, félagslegrar og efnahagslegrar sjálfbærni hjá félaginu. Orkunotkun, sorp og vatnsnotkun er tilgreind frá sex fasteignum sem Reginn sér um rekstur í. Þessar fasteignir eru Smáralind, Egilshöll, Höfðatorg, Áslandsskóli og leikskólarnir Tjarnarvellir og Hörðuvellir. Í öðrum eignum sér félagið ekki um daglegan rekstur heldur er hann í höndum leigutaka. Samtals telja þessar eignir 33,6% af heildarfermetrum í eignasafni félagsins. Teknar hafa verið saman upplýsingar ársins 2020 fyrir þessar eignir og eru þær birtar hér. Aðrar félags- og stjórnháttalegar upplýsingar eiga við um samstæðuna í heild. Sjá nánar í tilvísunartöflu.

Á haustmánuðum gerði Reitun UFS áhættumat á félaginu. Áhættumatið gerir grein fyrir hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum, og stjórnarháttum. Matið er framkvæmt fyrir hönd fjárfesta og er gerð á útgefendum verðbréfa.

Reginn fékk góða einkunn eða 74 stig af 100 stigum mögulegum og endaði í flokki B2.

Í samanburði við aðra íslenska útgefendur sem hafa farið í gegnum UFS greiningu hjá Reitun er stigagjöf félagsins vel fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum.

 

 

Umhverfisleg sjálfbærni

Umhverfið

Reginn hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á umhverfismál og sjálfbærni í sínum rekstri. Hefur félagið farið í ýmsar aðgerðir og verkefni með það að markmiði að minnka neikvæð umhverfisáhrif og auka umhverfisvitund en helstu neikvæðu áhrifin sem félagið hefur á umhverfið er losun gróðurhúslofttegunda frá fasteignum félagsins á rekstrartíma þeirra. Fasteignir eru ábyrgar fyrir um það bil þriðjungi af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og fellur þessi losun einnig til á rekstrartíma fasteignanna. Sem fasteignafélag sem sér um rekstur í fasteignum í um þriðjungi eignasafns síns er félagið í einstakri aðstöðu til að minnka neikvæð umhverfisáhrif fasteigna sinna. Stór þáttur í að mæta þessum neikvæðu áhrifum eru umhverfisvottanir fasteigna. Með umhverfisvottunum fasteigna er m.a. hægt að greina þær áhættur sem hver bygging skapar fyrir umhverfið og er staðfesting þriðja aðila á því að rekstraraðili fylgi bestu stöðlum og kröfum í rekstri fasteigna.

Það sem helst orsakar losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Regins er hvers kyns orkunotkun. Félagið hefur því skilgreint orkunotkun sem helsta áhættuþátt á þessu sviði. Einnig hefur sorp og meðhöndlun þess mikil umhverfisáhrif og því er sorp einnig flokkað sem ein af áhættum .   

Til að stuðla að umhverfislegri sjálfbærni hefur félagið sett sér markmið í tenglsum við megináhættur um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri og við framkvæmdir ásamt því að kolefnisjafna þá losun sem tengist starfssemi félagsins. Þá skal nýta náttúruauðlindir með ábyrgum hætti og leita leiða til að draga úr notkun þeirra ásamt því að hámarka hlutfall endurnýjanlegar orku. Lágmarka skal notkun á vörum sem eru skaðlegar umhverfinu og áhersla lögð á að draga úr magni sorps og auka flokkunarhlutfall þess.

Losun gróðurhúsalofttegunda

Losun gróðurhúsalofttegunda kemur frá ýmsum þáttum í rekstrinum. Árið 2020 setti félagið sér það markmið að minnka losun CO2 um 3% á fermeter fyrir lok árs 2021. Heildar losun 2020 var samtals 707,4 tCO2í sem nemur um 3% minnkun frá fyrra ári.* Markmið 2021 náðist því á árinu 2020 og verður endurskoðað fyrir 2021. Sé hins vegar horft á beina losun vegna reksturs húsnæðis, bifreiða í eigu félagsins og vegna framleiðslu á orku sem eignir í rekstri nota, umfang 1 og 2, var losunin 518,8 tCO2í. Losun á fermeter vegna umfangs 1 og 2 var því 4,1 kgCO2/m2 árið 2020 sem jafngildir um 1% minnkun milli ára. 

* Kolefnisspor ársins 2019 var endurskoðað með tilliti til nýrra upplýsinga

BREEAM-In-Use

-3% lækkun 

 

Kolefnisjöfnun

Á árinu 2020 kolefnisjafnaði Reginn árlega losun 707,4 tonna af CO2 frá starfsemi sinni með endurheimt votlendis hjá Votlendissjóði. 

Með kolefnisjöfnun er verið að jafna út þá losun gróðurhúsalofttegunda sem kemur frá starfsemi félagsins með því að draga úr losun þessara lofttegunda annars staðar. Er þetta í annað skipti sem félagið kolefnisjafnar starfsemi sína hjá Votlendissjóði en það var í fyrsta skipti gert fyrir losun ársins 2019.

 
BREEAM-In-Use

Aðgerðir í umhverfismálum

Á síðastliðnum árum hafa verið gerðar ítarlegar greiningar á þeim þáttum sem hafa hvað mest umhverfisáhrif í rekstri eigna félagsins. Umhverfisvottanir fasteigna spila þar stórt hlutverk. Með það að markmiði að minnka neikvæð umhverfisáhrif hefur verið farið í ýmsar aðgerðir til að minnka orkunotkun, endurnýjun lýsingar og ljósastýring, orkuvöktun gerð markvissari og keyptir rafknúnir bílar. Þá hefur aukin áhersla verið lögð á sorpflokkun með aukið flokkunarhlutfall í huga, innkaup umhverfisvottaðra ræstivara og endurnýtingu byggingarefnis.

Unnið var að nokkrum stærri verkefnum á árinu sem hluta af grænni vegferð félagsins. Ber þar helst að nefna BREEAM In-use umhverfisvottun Höfðatorgs, áframhaldandi þróun á snjallsorpi og innleiðingu rafrænnar þjónustu sem gerir félaginu fært að stunda pappírslaus viðskipti. Lausnir sem hvetja viðskiptavini félagsins til að huga að sínum neikvæðu umhverfisáhrifum.

Umhverfisvottanir

Á árinu 2020 hlaut turninn á Höfðatorgi umhverfisvottun og var þar með önnur fasteign félagsins til að hljóta BREEAM In-use vottun þar sem fylgt er alþjóðlegum kröfum um umhverfisþætti, áhættustýringu og rekstur. Með umhverfisvottun fasteigna er einnig komið til móts við sífellt auknar kröfur viðskiptavina um umhverfisvænar byggingar og upplýsingagjöf um hina ýmsu umhverfisþætti í rekstri þeirra. Hafin er undirbúningur að umhverfisvottun fleiri eigna félagsins en umhverfisvottun fasteigna er hluti af sjálfbærnimarkmiðum Regins. Félagið stefnir á að helmingur eignasafnsins verði umhverfisvottaður árið 2025 en nú þegar hafa 23% af fasteignum félagsins verið vottuð.

BREEAM-In-Use

23% eignasafnsins
BREEAM-In-Use vottað

 

Snjalllausnir

Unnið hefur verið að þróun rafrænna lausna sem styðja við sjálfbærnimarkmið félagsins.

Snjallsorpslausn hefur verið í mótun í eignum Regins frá 2018 og var fyrsta sorpflokkunarstöðin tekin í notkun á Hafnartorgi haustið 2019. Snjallsorpið skráir magn og sorpflokka niður á leigutaka og gerir með því hvern leigutaka ábyrgan fyrir sinni flokkun og þeim kostnaði sem hlýst af því sorpi sem til fellur. Reynsla er nú komin á snjallsorpið og hefur lausnin gefið góða raun. Sést það best á greinilegum mun á árangri í flokkun en hlutfallið á Hafnartorgi var 25% hærra en í öðrum eignum í rekstri árið 2020. Undirbúningur fyrir innleiðingu snjallsorps í Smáralind er þegar hafinn og verður tekin ný og endurbætt flokkunarstöð í gagnið þar á vormánuðum 2021. Lausnin í Smáralind byggir á sömu grunnhugmynd og sú á Hafnartorgi en verður töluvert umfangsmeiri í sniðum. Þá er til skoðunar að setja upp snjallsorp í fleiri eignum félagsins. Með aðstoð tækninnar geta notendur nálgast upplýsingar um eigin árangur í sorpflokkun og þróun milli mánaða á þjónustuvef Regins.

Þjónustuvefur Regins, sem nánar er gerð grein fyrir undir lykilverkefnum ársins, er mikilvægt verkfæri í sjálfbærniþróun félagsins. Með þjónustuvefnum næst fram greinargóð upplýsingagjöf og hvatning til viðskiptavina um að leggja sitt af mörkum við að draga úr losun koltvísýrings. Aðgengi að umhverfisupplýsingum eins og frá snjallsorpi gerir fyrirtækjum kleift að setja sér mælanleg umhverfismarkmið og fylgjast með árangri starfsmanna með lifandi upplýsingum.

Unnið er að þróun þjónustuvefsins og m.a. stefnt á aukna upplýsingagjöf varðandi rekstrarþætti fasteignanna eins og orkunotkun. Þessar lausnir eru jafnframt liður í að hvetja og styðja viðskiptavini í sinni grænu vegferð.

Pappírslaus viðskipti

Reginn hefur sett sér markmið um að draga úr notkun á pappír og útprentun efnis. Sem liður í því var rafræn skeytamiðlun tekin upp síðla árs 2019. Þá hefur útgáfu prentaðra reikninga alfarið verið hætt frá ármótum 2020 og eru nú einungis sendir út rafrænir reikningar á alla leigutaka félagsins. Einnig var innleidd rafræn undirritun en skv. upplýsingum frá Taktikal spöruðust með því um 460 ferðir og 4.000 km í ferðalög. Áætla má að með því hafi sparast 508,5 kgCO2í sem annars hefðu verið losuð út í andrúmsloftið.

BREEAM-In-Use

Með notkun rafrænna undirskrifta
hefur Reginn jákvæð áhrif á umhverfið.

Kílómetrar sparaðir

4.004 km.

Bílferðir sparaðar

459 ferðir

Minnkað kolefnisspor

508,5 kg CO2

 

Rafbílahleðslur

Til að hvetja til orkuskipta við samgöngur hefur Reginn fjárfest í 42 rafbílahleðslustöðvum og sett þær upp við þrjú af kjarnasvæðum félagsins, Smáralind, Höfðatorg og Egilshöll. Árið 2020 voru bifreiðar hlaðnar 8.500 sinnum á þessum hleðslustöðvum og dugar orkan til að keyra fólksbíl yfir 300 sinnum hringinn í kringum landið. Áætla má að með því hafi sparast um 60 tCO2í sem annars hefðu verið losuð út í andrúmsloftið.

Hjólastæði og geymslur

Til að styðja við auknar áherslur viðskiptavina um fjölbreyttari samgöngumáta og áherslur félagsins á grænar samgöngur við fasteignir sínar, hefur Reginn fjárfest í hjólageymslum við um þriðjung af eignum félagsins. Í heildina hefur Reginn sett upp hjólastæði- eða grindur fyrir um 940 hjól og er um 70% af stæðunum í læstum, upphituðum og öruggum hjólageymslum. Nýjasta viðbótin er tvískipt hjólageymsla við Smáralind sem var opnuð í desember 2020 og tekur rúmlega 100 reiðhjól. Önnur geymslan er vöktuð hjólageymsla fyrir viðskiptavini Smáralindar þar sem góð aðstaða er til að hlaða rafmagnshjól og verkfæri fyrir léttari viðgerðir. Hin geymslan er aðgangsstýrð hjólageymsla fyrir starfsfólk Smáralindar.

Fjöldi reiðhjólastæða

Orka og sorp

Orkunotkun er breytileg eftir eðli þeirrar starfsemi sem er í viðkomandi húsnæði. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna orkuframleiðslu vegur þyngst í rekstri fyrirtækisins. Þessi orkunotkun er öll notkun á heitu vatni, bæði til upphitunar og heitu neysluvatni sem og öll raforka sem viðkomandi eignir Regins nota. Einnig er hluti af heildarorkunotkuninni öll notkun eldsneytis á farartæki í eigu félagsins.

Reginn vaktar orkunotkun í eignum í rekstri og eru frávik í orkunotkun greind. Auknar upplýsingar um notkun gera félaginu kleift að grípa fyrr inn í ef um frávik er að ræða, veita betri innsýn í orkufrekustu þætti starfseminnar og varpa ljósi á hvar aðgerða er þörf. Þegar skoðuð er þróun á orkunotkun frá árinu 2018 þá hefur heildarorkunotkun dregist saman um 7%.

 

Raforka

Uppruni þeirrar raforku sem Reginn kaupir fyrir eignir í rekstri er 99,5% frá endurnýjanlegum orkugjöfum eins og jarðvarma og vatnsafli. Árið 2019 setti félagið sér það markmið að minnka raforkunotkun á fermeter í eignum í rekstri um 8% fyrir lok árs 2022. Náðist það markmið á árinu 2020 með 8,1% minnkun og verður því endurskoðað.

BREEAM-In-Use

-8% lækkun 

Vatnsorka

Kalt vatn er helst notað sem neysluvatn og til kælingar í hús- og tölvukerfum en heitt vatn er notað í upphitun, sem neysluvatn og í snjóbræðslu. Árið 2020 setti félagið sér það markmið að minnka vatnsnotkun eigna í rekstri á hvern fermeter. Raun breyting á fermeter í heitu vatni var 5,7% aukning en markmið fram til 2025 er 5% minnkun miðað víð árið 2019. Við greiningu á aukinni notkun kom í ljós að stærsta hluta aukningarinnar má rekja til byggingar i eignasafninu þar sem kyndingarkerfi hússins er mjög vatnsfrekt og nýtir orkuna ekki eins og best er á kosið. Á árinu 2021 verða gerðar frekari greiningar og farið í aðgerðir til að minnka orkunotkun fasteignarinnar.

BREEAM-In-Use

5,7% hækkun

 

Sorpflokkun

Reginn leggur áherslu á sorpflokkun og stuðning við leigutaka í þeim efnum sem hluta af grænni vegferð félagsins. Markmiðið er tvíþætt, annars vegar að auka sorpflokkun þar sem hlutfall almenns sorps fer minnkandi og hins vegar að draga úr heildarmagni sorps sem til fellur frá eignum félagsins. Stærsti hluti þess sorps sem fellur til er þó á vegum leigutaka og því mikilvægt að auka vitund á mikilvægi flokkunar og þeim efnahagslega og umhverfislega ávinningi sem hlýst af aukinni sorpflokkun. Á árinu 2020 var markmið félagsins að auka flokkunarhlutfall sorps í 45% ásamt því að draga úr heildarmagni. Sorpflokkun í eignum félagsins hefur aukist milli ára og er nú 46,9%. Heildarmagn úrgangs minnkaði um 16% milli áranna 2019 og 2020 á sama tíma og óflokkaður úrgangur minnkaði um 26%. Í Smáralind hefur hlutfall sorpflokkunar aukist úr 42% í 49% þar sem aukning í bylgjupappa um 5 prósentustig vegur þyngst. Vonast er til að með fyrirhugaðri uppsetningu snjallsorps í Smáralind á vormánuðum, náist enn betri árangur í sorpflokkun hússins en 74% af öllu sorpi sem kom frá eignum í rekstri árið 2020, féll til í Smáralind. Einnig verður unnið að bættri sorpflokkun í Egilshöll.

BREEAM-In-Use

46,9%
flokkunarhlutfall

 

Umhverfisstjórnunarkerfi

Reginn notast við EnviroMaster hugbúnaðalausn frá Klöppum til að halda utan um upplýsingar varðandi rafmagns- og vatnsnotkun, sorp og eldsneytisnotkun í þeim eignum sem félagið sér um rekstur í. Frá árinu 2019 hefur Reginn nýtt sér viðbótarþjónustu Klappa sem gerir kleift að taka út umhverfisskýrslur ársfjórðungslega.

Auðveldar það félaginu að vakta umhverfislega mikilvæga þætti, fylgja markmiðum eftir og upplýsa stjórnendur og fjárfesta um framvindu.

 

 

Félagsleg sjálfbærni

Félagsleg sjálfbærni

Með félagslega sjálfbærni að leiðarljósi skal tryggja vellíðan fólks og öruggt og heilbrigt umhverfi. Á það jafnt við innanhúss og umhverfis fasteignir félagsins, í þágu starfsfólks, leigutaka og gesta þeirra. Hjá Regin er áhersla lögð á græn sjónarmið í skipulagsmálum og byggingum og þar með aukin lífsgæði þeirra sem þar fara um. Samfélagslegir þættir verða einnig hafðir í huga við skipulag og hugað að vettvangi til aukinna samskipta.

Megináhættur er tengjast félagslegum þáttum eru heilsa og öryggi starfsmanna og verktaka. Mannréttindi í virðiskeðjunni og mannauðsmál. Reginn hefur sett sér lykilmælikvarða í tengslum við félagslega þætti sem eru að stuðla að öruggu starfsumhverfi og að fækka veikindadögum starfsmanna, sýna samfélagslega ábyrgð í viðskiptum ásamt því að jafna laun karla og kvenna.

Á árinu 2020 var farið í ýmsar aðgerðir til að tryggja vellíðan og efla starfsánægju starfsfólks. Gerð var könnun í lok ársins meðal starfsmanna þar sem ýmsir þættir starfsánægju, viðhorfs og líðan voru skoðaðir en félagið leggur áherslu á að huga að góðu og öruggu starfsumhverfi og fækka veikindadögum starfsmanna. Sérstaklega var spurt út í líðan starfsmanna í tengslum við Covid-19 og áhrif faraldursins á störf þeirra. Í kjölfarið var gerð aðgerðaráætlun sem unnið verður að á árinu 2021. Haldnir voru mun færri starfsmannafundir en til stóð vegna Covid-19 sóttvarnarreglna en þeir fundir sem haldnir voru eftir febrúarmánuð voru rafrænir. Einnig var gerð þjónustukönnun meðal viðskiptavina og verða niðurstöður þeirrar könnunar nýttar til að efla samstarf og samskipti við viðskiptavini ásamt því að koma til móts við óskir þeirra.

Mannréttindi

Mannréttindi eru ein af grundvallarstoðum samfélagsins og fylgir Reginn mikilvægum grunngildum er varða mannréttindi í allri sinni starfsemi. Tryggja skal jöfn tækifæri og laun án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Til að sporna gegn áhættu á mannréttindabrotum gerir félagið kröfur til sinna leigutaka, verktaka og birgja að starfsemi þeirra sé ávallt í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma og brjóti ekki gegn almennum mannréttindum, s.s. réttindum á vinnumarkaði og góðum aðbúnaði á vinnustað. Einnig staðfesta verktakar og birgjar að bera svokallaða keðjuábyrgð skv. lögum. Þá hefur Reginn sett sér starfs- og siðareglur sem kveða á um að virðing, sanngirni, kurteisi og sæmd skulu einkenna öll samskipti við viðskiptavini, samstarfsmenn og aðra sem stofnað er til viðskiptasambands við.

Velferð og heilsa

Reginn leggur mikið upp úr velferð og heilsueflingu starfsmanna þar sem stuðlað er að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Félagið veitir heilsustyrki árlega, innan þess er virkt starfsmannafélag.. Reginn styður við heilsueflingu starfsmanna með heilsustyrk og jákvæðu viðhorfi til heilsueflingar og heilbrigðs lífernis. 62% starfsmanna nýttu sér heilsustyrkinn 2020. Félagið veitir einnig orlofsstyrk sem var nýttur af 49% starfsmanna árið 2020. Starfandi er íþróttanefnd sem skipuleggur ýmsa heilsueflandi viðburði, svo sem líkamsrækt, hjólaferðir, fjallgöngur og golf. 

Árið 2020 voru veikindadagar 3,37 að meðaltali á starfsmann, sem er fækkun sem nemur 32% frá árinu áður, og þrjú slys. Við vinnu er áhætta takmörkuð eftir fremsta megni og menn klæðast vinnuverndarbúnaði. Til að stuðla að öruggu starfsumhverfi starfsmanna eru t.d. haldin námskeið fyrir starfsmenn um eldvarnarhættu, skyndihjálp og námskeið um meðhöndlun vinnuvéla. Ef um vinnuslys er að ræða eru þau tilkynnt til vinnueftirlitsins. Hvert slys er metið fyrir sig og kappkostað að fyrirbyggja sambærileg slys með bættum búnaði eða aðbúnaði, eftir því sem við á. 

Starfræktar eru nefndir á vinnustaðnum sem ætlað er að fyrirbyggja og taka á málum sem tengjast kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti. Hjá félaginu gildir félagafrelsi starfsmanna.

Starfskjör

Félagið hefur sett sér starfskjarastefnu sem felur í sér það yfirlýsta markmið að laða til sín hæfustu einstaklinga á hverjum tíma, greiða samkeppnishæf laun og viðhalda samkeppnisstöðu félagsins. Starfandi er starfskjaranefnd og er hlutverk nefndarinnar að vera leiðbeinandi fyrir félagsstjórn og framkvæmdastjórn um starfskjör æðstu stjórnenda félagsins og ráðgefandi um starfskjarastefnu. Við ákvörðun um starfskjör er horft til ábyrgðar og árangurs og gætt að jafnréttissjónarmiðum.

Jafnlaunavottun

Eitt af markmiðum Regins tengt félagslegri sjálfbærni er að jafna laun kynjanna. Reginn fór í gegnum jafnlaunagreiningu og forúttekt á jafnlaunakerfi árið 2020 og áætlar að fara í vottunarúttekt á fyrsta ársfjórðungi 2021. Niðurstaða jafnlaunagreiningarinnar sýndi að grunnlaun karla árið 2020 voru 1,3% hærri en grunnlaun kvenna og hefur munurinn minnkað um 0,3 prósentustig frá árinu 2018. Félagið hlaut jafnframt gullmerki jafnlaunaúttektar PwC. Reginn hefur einnig sett sér jafnlaunastefnu og jafnréttisstefnu en markmið þeirra er að tryggja jafnræði við ákvörðun launa og sjá til þess að starfsmenn njóti jafnra kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni.

1,3% kynjabundin
launamunur

 

Kynjaskipting

Árið 2020 var kynjaskipting starfsmanna 38% konur og 62% karlar. Reginn hefur lagt áherslu á jöfnun kynjahlutfalla í stjórnunarstöðum og var það hlutfall 60% karlar, 40% konur árið 2020.

Kynjahlutfall í stjórn Regins 2020 var 60% konur, 40% karlar og uppfyllir félagið því ákvæði hlutafélagalaga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga.

 

Starfs- og siðareglur

Í sjálfbærnistefnu félagsins er áréttað að hvers kyns spilling, mútur af einhverju tagi eða önnur ólögleg starfsemi sé ekki liðin undir neinum kringumstæðum. Félagið framfylgir góðu viðskiptasiðferði á gagnsæjan hátt og í samræmi við verklagsreglur og takmarkar þannig áhættu af spillingu, mútum og annarri ólöglegri starfsemi. Á árinu 2020 komu ekki upp nein mál tengd spillingu eða mútum. Í samræmi við sjálfbærnistefnu félagsins skulu allir birgjar og samstarfsaðilar félagsins kynna sér siðareglur Regins, staðfesta þær og framfylgja þeim. Félagið hefur sett sér stefnu um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem hefur þann tilgang að koma á og viðhalda skilvirku kerfi til að sporna við áhættu á því að þjónusta og eignir Regins og dótturfélaga séu notaðar í ólöglegum tilgangi. Það er stefna félagsins að stunda hvorki viðskipti við aðila sem teljast áhættusamir né tengjast slíkum aðilum. Félagið leitast þar af leiðandi við að velja birgja sem sýna samfélagslega ábyrgð og hafa gott viðskiptasiðferði að leiðarljósi.

Starfs- og siðareglur Regins gilda um alla starfsemi, alla starfsmenn og stjórnendur samstæðunnar. Við ráðningu staðfesta starfsmenn að þeir hafi lesið, skilið og muni starfa eftir reglunum. Markmið þeirra er að mæla fyrir um almennar skyldur starfsmanna til þess að stuðla að heiðarleika, réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla traust viðskiptavina og almennings á félaginu. Reglurnar endurspegla mikilvæg gildi á borð við áreiðanleika, sanngirni og jafnræði sem grundvallast á því að starfsmenn félagsins skulu koma fram af heiðarleika og trúnaði og eru bundnir þagnarskyldu lögum samkvæmt um hvaðeina sem þeir kunna að verða áskynja í starfi sínu varðandi viðskiptavini og um starfsemi félagsins. Starfsmenn og stjórnendur skulu aldrei láta einkahagsmuni stangast á við hagsmuni félagsins eða viðskiptavina þess. Starfsmönnum ber að tilkynna mögulega hagsmunaárekstra til regluvarðar eða næsta yfirmanns.

Reginn varðveitir persónuupplýsingar á öruggan hátt í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd. Reginn hefur sett sér persónuverndarstefnu til að tryggja öryggi persónuupplýsinga ásamt því að setja sér samkeppnisstefnu.

Á réttri braut

Á tólfta starfsári sínu er félagið ennþá í vexti og þróun og er Reginn afar stolt af þeim viðurkenningum sem félagið hefur hlotið í gegnum árin. Á árinu 2020 hlotnuðust félaginu viðurkenningar sem eru staðfesting þess að félagið sé á réttri braut.

Reginn hlaut viðurkenninguna Framúrskarandi fyrirtæki 2020 og var því eitt af 2% íslenskra fyrirtækja sem uppfylla skilyrði greiningar CreditInfo en félagið hefur hlotið viðurkenninguna á hverju ári frá árinu 2014. Félagið var einnig eitt af 2,8% fyrirtækja á landinu til að vera á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2020 og lenti þar í sjöunda sæti, efst íslenskra fasteignafélaga. Í ágúst 2020 hlaut Reginn síðan viðurkenningu Stjórnvísis sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum 2019-2020 en þeirri viðurkenningu er ætlað að ýta undir aðgerðir sem efla góða stjórnarhætti. Í byrjun árs 2021 var Smáralind efst í flokki verslunarmiðstöðva í niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar. Rannsóknin mælir ánægju viðskiptavina gagnvart fyrirtækjum en einnig er horft til annarra þátta eins og ímyndar, mat á gæðum og tryggð viðskiptavina. Jafnframt var gerð jafnlaunagreining á árinu og fékk félagið gullmerki jafnlaunavottunar PwC sem þegar hefur verið fjallað um hér að framan.

Efnahagsleg sjálfbærni

Efnahagsleg sjálfbærni

Efnahagsleg sjálfbærni er þriðji grunnþátturinn í sjálfbærnistefnu Regins. Sá þáttur er ekki síður mikilvægur en umhverfis- og félagsleg sjálfbærni þegar kemur að farsælum rekstri félagsins til langs tíma.

Helstu áhættur í starfseminni felast í efnahagsumhverfinu og fjármögnun félagsins. Stjórn félagsins hefur samþykkt áhættustefnu sem hefur það að markmiði að uppgötva og greina áhættur, setja viðmið um áhættur og hafa eftirlit með þeim. Félagið mætir helstu áhættum með því að halda sterkri eiginfjár- og lausafjárstöðu ásamt tryggu aðgengi að lánsfjármagni.

Helstu áhættur sem fylgja fjármálagerningum samstæðunnar eru lánsáhætta, lausafjáráhætta, markaðsáhætta og rekstraráhætta. Sem dæmi um aðgerðir til að sporna við þessari áhættu eru rétt samsetning viðskiptamanna, fasteignir á sterkum markaðssvæðum, eiginfjárhlutfall yfir 30%, langtímasamningar um fjármögnun, trygg og stöðug lausafjárstaða, öruggar og opnar lánalínur, viðskiptamenn skili inn tryggingu, fylgst er með vaxtabreytingum og þróun verðbólgu.

Markmiðið er að tryggja sjálfbært sjóðsstreymi félagsins og lágmarka áhættu í rekstri með áherslu á stöðuga þróun eignasafnsins. Nýta skal fjármagn og mannauð félagsins með sem hagkvæmustum hætti auk þess sem verklag innan félagsins einkennist af góðu viðskiptasiðferði, heilbrigðum viðskiptaháttum og ábyrgð. Þessar áherslur treysta fjárhagslegan styrk Regins til lengri tíma, auka arðsemi og styðja við langtímavöxt.

Efnahagslegir lykilmælikvarðar

Reginn hefur skilgreint fjóra lykilmælikvarða efnahagslegrar sjálfbærni í áhættustefnu félagsins og snúa þeir að fjölgun BREEAM vottaðra eigna, eiginfjárhlutfalli, arðsemi eigin fjár og skuldahlutfalli.

Einn af lykilþáttum í áhættustefnu félagsins er að setja mörk og skilyrði á helstu áhættuþætti félagsins. Í því sambandi er fjölgun BREEAM In-use vottaðra eigna í eignasafni félagsins mikilvæg m.a. til að fjölga eignum  í grænni fjármögnunarumgjörð félagsins.  Reginn skráði á árinu græna umgjörð fyrir útgáfu grænna skuldabréfa og er grænu umgjörðinni ætlað að styðja við fjármögnun á umhverfisvænum verkefnum. Í lok árs var bókfært virði vottaðra eigna undir grænu umgjörðinni 21.078 millj.kr. og græn fjármögnun 16.084 millj.kr. eða 18% af lánasafni félagsins en markmið ársins 2020 var 15%. Félagið hefur sett sér markmið um að helmingur eigna félagsins verði BREEAM In-use vottaðar í lok árs 2025 en í lok árs 2020 var hlutfallið komið í 23%.  Með fjölgun vottaðra eigna Regins mun svigrúm til grænnar fjármögnunar félagsins aukast enn frekar. 

Fyrir árið 2020 var markmið stjórnar að eiginfjárhlutfall færi ekki undir 30% og náðist það markmið með 31% hlutfalli. Markmið um arðsemi eiginfjár er að arðsemi sé að jafnaði hærri en 10% en reyndist 3% árið 2020 sem skýrist einna helst af áhrifum Codiv-19 faraldursins. Þá er markmið stjórnar að skuldahlutfall fari ekki yfir 65% en á árinu 2020 var hlutfallið 63%. Hér að neðan má sjá þróun þessara lykilþátta undanfarin 5 ár.

Sjá tilvísunartöflu