Á árinu 2020 kolefnisjafnaði Reginn árlega losun 707,4 tonna af CO2 frá starfsemi sinni með endurheimt votlendis hjá Votlendissjóði.
Reginn
Reginn er brautryðjandi og framsækið fasteignafélag sem er eftirsóknarverður samstarfsaðili og vinnuveitandi. Félagið einsetur sér að vera leiðandi í mótun og rekstri fasteigna auk þess að stuðla að velferð samfélags, bættum lífsgæðum og umhverfi íbúa. Rekstur og skipulag fasteigna hefur umtalsverð áhrif á umhverfi og lífsgæði íbúa en tugir þúsunda manna dvelja daglega í fasteignum Regins, ýmist við leik eða störf. Með markvissum aðgerðum í rekstri fasteigna, fjárfestingum, skipulagi, nýbyggingum og með samvinnu við leigutaka getur Reginn átt ríkan þátt í móta umhverfi fólks þannig að daglegt líf verði betra, ánægjulegra og öruggara.
Á árinu 2019 mótaði Reginn sér sjálfbærnistefnu sem tekur á umhverfislegri, félagslegri og efnahagslegri sjálfbærni. Samhliða setti félagið sér mælanleg markmið í þessum þremur flokkum sem unnið var að á árinu 2020. Í lok árs 2020 voru markmiðin endurskoðuð með reynslu og árangur ársins til hliðsjónar. Árangur í sjálfbærni verður áfram mældur með markvissum hætti og starfsmenn, viðskiptavinir og fjárfestar upplýstir um markmiðin og þann árangur sem næst. Í fjárfestingum og rekstri fasteigna er horft til langs tíma. Það er trú félagsins að áhersla á sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri félagsins og styrki fjárhagslega arðsemi til lengri tíma litið.
Þau markmið sem félagið leggur lykiláherslu á tengjast umhverfislegri, félagslegri og efnahagslegri sjálfbærni.
Lögð er áhersla á að samþætta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við rekstur félagsins. Félagið leggur megináherslu á sex markmið sem daglegur rekstur þess hefur mest áhrif á: heilsu og vellíðan, framleiðslu og aðgerðir í loftlagsmálum, jafnrétti kynjanna, sjálfbærar borgir og samfélög, sjálfbæra orku og ábyrga neyslu.

Hér á eftir er gert grein fyrir helstu þáttum umhverfislegrar, félagslegrar og efnahagslegrar sjálfbærni hjá félaginu. Orkunotkun, sorp og vatnsnotkun er tilgreind frá sex fasteignum sem Reginn sér um rekstur í. Þessar fasteignir eru Smáralind, Egilshöll, Höfðatorg, Áslandsskóli og leikskólarnir Tjarnarvellir og Hörðuvellir. Í öðrum eignum sér félagið ekki um daglegan rekstur heldur er hann í höndum leigutaka. Samtals telja þessar eignir 33,6% af heildarfermetrum í eignasafni félagsins. Teknar hafa verið saman upplýsingar ársins 2020 fyrir þessar eignir og eru þær birtar hér. Aðrar félags- og stjórnháttalegar upplýsingar eiga við um samstæðuna í heild. Sjá nánar í tilvísunartöflu.
Á haustmánuðum gerði Reitun UFS áhættumat á félaginu. Áhættumatið gerir grein fyrir hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum, og stjórnarháttum. Matið er framkvæmt fyrir hönd fjárfesta og er gerð á útgefendum verðbréfa.
Reginn fékk góða einkunn eða 74 stig af 100 stigum mögulegum og endaði í flokki B2.
Í samanburði við aðra íslenska útgefendur sem hafa farið í gegnum UFS greiningu hjá Reitun er stigagjöf félagsins vel fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum.
Umhverfið
Reginn hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á umhverfismál og sjálfbærni í sínum rekstri. Hefur félagið farið í ýmsar aðgerðir og verkefni með það að markmiði að minnka neikvæð umhverfisáhrif og auka umhverfisvitund en helstu neikvæðu áhrifin sem félagið hefur á umhverfið er losun gróðurhúslofttegunda frá fasteignum félagsins á rekstrartíma þeirra. Fasteignir eru ábyrgar fyrir um það bil þriðjungi af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og fellur þessi losun einnig til á rekstrartíma fasteignanna. Sem fasteignafélag sem sér um rekstur í fasteignum í um þriðjungi eignasafns síns er félagið í einstakri aðstöðu til að minnka neikvæð umhverfisáhrif fasteigna sinna. Stór þáttur í að mæta þessum neikvæðu áhrifum eru umhverfisvottanir fasteigna. Með umhverfisvottunum fasteigna er m.a. hægt að greina þær áhættur sem hver bygging skapar fyrir umhverfið og er staðfesting þriðja aðila á því að rekstraraðili fylgi bestu stöðlum og kröfum í rekstri fasteigna.
Það sem helst orsakar losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Regins er hvers kyns orkunotkun. Félagið hefur því skilgreint orkunotkun sem helsta áhættuþátt á þessu sviði. Einnig hefur sorp og meðhöndlun þess mikil umhverfisáhrif og því er sorp einnig flokkað sem ein af áhættum .
Til að stuðla að umhverfislegri sjálfbærni hefur félagið sett sér markmið í tenglsum við megináhættur um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri og við framkvæmdir ásamt því að kolefnisjafna þá losun sem tengist starfssemi félagsins. Þá skal nýta náttúruauðlindir með ábyrgum hætti og leita leiða til að draga úr notkun þeirra ásamt því að hámarka hlutfall endurnýjanlegar orku. Lágmarka skal notkun á vörum sem eru skaðlegar umhverfinu og áhersla lögð á að draga úr magni sorps og auka flokkunarhlutfall þess.
Losun gróðurhúsalofttegunda

Unnið er að þróun þjónustuvefsins og m.a. stefnt á aukna upplýsingagjöf varðandi rekstrarþætti fasteignanna eins og orkunotkun. Þessar lausnir eru jafnframt liður í að hvetja og styðja viðskiptavini í sinni grænu vegferð.



Fjöldi reiðhjólastæða



Félagsleg sjálfbærni
Með félagslega sjálfbærni að leiðarljósi skal tryggja vellíðan fólks og öruggt og heilbrigt umhverfi. Á það jafnt við innanhúss og umhverfis fasteignir félagsins, í þágu starfsfólks, leigutaka og gesta þeirra. Hjá Regin er áhersla lögð á græn sjónarmið í skipulagsmálum og byggingum og þar með aukin lífsgæði þeirra sem þar fara um. Samfélagslegir þættir verða einnig hafðir í huga við skipulag og hugað að vettvangi til aukinna samskipta.
Megináhættur er tengjast félagslegum þáttum eru heilsa og öryggi starfsmanna og verktaka. Mannréttindi í virðiskeðjunni og mannauðsmál. Reginn hefur sett sér lykilmælikvarða í tengslum við félagslega þætti sem eru að stuðla að öruggu starfsumhverfi og að fækka veikindadögum starfsmanna, sýna samfélagslega ábyrgð í viðskiptum ásamt því að jafna laun karla og kvenna.
Á árinu 2020 var farið í ýmsar aðgerðir til að tryggja vellíðan og efla starfsánægju starfsfólks. Gerð var könnun í lok ársins meðal starfsmanna þar sem ýmsir þættir starfsánægju, viðhorfs og líðan voru skoðaðir en félagið leggur áherslu á að huga að góðu og öruggu starfsumhverfi og fækka veikindadögum starfsmanna. Sérstaklega var spurt út í líðan starfsmanna í tengslum við Covid-19 og áhrif faraldursins á störf þeirra. Í kjölfarið var gerð aðgerðaráætlun sem unnið verður að á árinu 2021. Haldnir voru mun færri starfsmannafundir en til stóð vegna Covid-19 sóttvarnarreglna en þeir fundir sem haldnir voru eftir febrúarmánuð voru rafrænir. Einnig var gerð þjónustukönnun meðal viðskiptavina og verða niðurstöður þeirrar könnunar nýttar til að efla samstarf og samskipti við viðskiptavini ásamt því að koma til móts við óskir þeirra.
Efnahagsleg sjálfbærni
Efnahagsleg sjálfbærni er þriðji grunnþátturinn í sjálfbærnistefnu Regins. Sá þáttur er ekki síður mikilvægur en umhverfis- og félagsleg sjálfbærni þegar kemur að farsælum rekstri félagsins til langs tíma.
Helstu áhættur í starfseminni felast í efnahagsumhverfinu og fjármögnun félagsins. Stjórn félagsins hefur samþykkt áhættustefnu sem hefur það að markmiði að uppgötva og greina áhættur, setja viðmið um áhættur og hafa eftirlit með þeim. Félagið mætir helstu áhættum með því að halda sterkri eiginfjár- og lausafjárstöðu ásamt tryggu aðgengi að lánsfjármagni.
Helstu áhættur sem fylgja fjármálagerningum samstæðunnar eru lánsáhætta, lausafjáráhætta, markaðsáhætta og rekstraráhætta. Sem dæmi um aðgerðir til að sporna við þessari áhættu eru rétt samsetning viðskiptamanna, fasteignir á sterkum markaðssvæðum, eiginfjárhlutfall yfir 30%, langtímasamningar um fjármögnun, trygg og stöðug lausafjárstaða, öruggar og opnar lánalínur, viðskiptamenn skili inn tryggingu, fylgst er með vaxtabreytingum og þróun verðbólgu.
Markmiðið er að tryggja sjálfbært sjóðsstreymi félagsins og lágmarka áhættu í rekstri með áherslu á stöðuga þróun eignasafnsins. Nýta skal fjármagn og mannauð félagsins með sem hagkvæmustum hætti auk þess sem verklag innan félagsins einkennist af góðu viðskiptasiðferði, heilbrigðum viðskiptaháttum og ábyrgð. Þessar áherslur treysta fjárhagslegan styrk Regins til lengri tíma, auka arðsemi og styðja við langtímavöxt.