Verkefni ársins
2020

Fjármögnun

Mikilvægasta verkefni félagsins á árinu var vel heppnuð endurfjármögnun á hluta lánasafns félagsins. Félagið nýtti sér hagstæð skilyrði á fjármagnsmörkuðum og voru tekin ný lán fyrir 30 ma.kr. bæði í formi skuldabréfaútgáfu og bankafyrirgreiðslu. Félagið greiddi á móti upp óhagstæð lán fyrir 24 ma.kr. Í lok árs voru vaxtaberandi lán rúmir 90 ma.kr. og skiptustu í 65 ma.kr. í verðtryggð lán og 25 ma.kr. óverðtryggð lán.

Félagið hefur með endurfjármögnuninni lækkað fjármagnskostnað vaxtaberandi lána. Meðalvextir verðtryggðra lána lækkuðu milli ár úr 3,84% í lok árs 2019 í 3,40% í lok árs 2020 og meðalvextir óverðtryggðra lána úr 6,04% í lok árs 2019 í 3,81% í lok árs 2020.

Við endurfjármögnunina hefur verið litið til þess að lækka greiðslubyrði lána næstu tvö ár til að mæta þeirri óvissu sem er vegna COVID-19 faraldursins. Ákvæði um uppgreiðslu fyrir lokagjaldaga á árinu 2021 eru í lánasamningum að fjárhæð 38 ma.kr. sem gefur félaginu tækifæri til að nýta hagstæða stöðu á fjármagnsmörkuðum til ennfrekari vaxtalækkunar.

Útgáfurammi

Langtímafjármögnun félagsins byggir að stærstum hluta á 70 ma.kr. útgáfuramma sem skráður var í Kauphöll í maí 2017. Markmiðið með útgáfurammanum var að skapa umgjörð utan um markaðsfjármögnun félagsins og að tryggja hagkvæmustu fjármögnun á hverjum tíma. Tilgangur með útgáfurammanum var:

  • Miðlæg fjármögnun hjá móðurfélagi.
  • Einfalt tryggingarfyrirkomulag.
  • Möguleiki á fjölbreyttri fjármögnun.
  • Sveigjanleiki til að kaupa og selja eignir.
  • Nýta sameiginlega virðisauka sem myndast í eignasafni.

Félagið fjölgaði eignum undir Almenna tryggingarfyrirkomulaginu og jukust verðmæti þar undir um 27 ma.kr. á árinu 2020 og með þeim fylgdu 14,5 ma.kr. af vaxtaberandi lánum. Frá árinu 2017 hefur félagið fært eignasöfn að fjárhæð 97 ma.kr. undir útgáfurammann og gefið út skuldabréf fyrir 46 ma.kr. Félagið gaf út á árinu 2020 tæpa 5 ma.kr. í skuldabréfaflokknum REGINN280130 undir Almennu tryggingarfyrirkomulagi. Félagið hefur einnig nýtt verðfyrirkomulagið fyrir bankafyrirgreiðslu og tók félagið ný bankalán fyrir tæpa 9 ma.kr. á árinu. Lánin eru uppgreiðanleg sem tryggir sveigjanleika gagnvart umsýslu eigna undir rammanum. Útgáfuramminn verður nýttur til endurfjármögnunar óhagstæðari lána á árinu 2021 með reglulegum útgáfum.

Græn fjármögnun

Með samþykkt sjalfbærnistefnu haustið 2019 og BREEAM-vottun Smáralindar í lok árs 2019 skapaðist skilyrði til útgáfu grænna skuldabréfa undir útgáfurammanum. Í mars 2020 skráði félagið græna umgjörð (Green Financing Framework) með það að markmiði að fjármagna umhverfisvottaðar fasteignir og umhverfisvænar fjárfestingar. Byggir græna umgjörðin á GBP (Green Bond Principles) með óháðu áliti CICERO, miðstöðvar alþjóðlegra loftslags- og umhverfisrannsókna.

Með 5 ma.kr. útgáfu í skuldabréfaflokknum REGINN50 GB varð Reginn fyrsta skráða félagið á Nasdaq Iceland til að selja græn skuldabréf. Heildarútgáfa í flokknum var 12,5 ma á árinu og seldist flokkurinn á 2,5% ávöxtunarkröfu. Félagið gaf einnig út stuttan óvertryggðan skuldabréfaflokk REGINN23 GB og seldi 2 ma á kröfunni 2,3%. Til viðbótar skuldabréfaútgáfu tók félagið 1,5 ma kr grænt bankalán. Í lok árs 2020 var græn fjármögnun 16 ma.kr. eða 18% af vaxtaberandi skuldum félagsins.

Í lok árs 2020 fékk Katrínartún 2 BREEAM in use vottun sem eykur svigrúm til grænnar fjármögnunar um rúmlega 10 ma.kr. Unnið er að vottun fleiri eigna og er stefnt að því að á næstu 5 árum verði verðmæti vottaðra eigna orðin yfir 70 ma.kr. Stefnt er að nýrri útgáfu grænna skuldabréfa á árinu 2021.

Stafræn vegferð

Mikilvæg skref voru tekin á þeirri stafrænu vegferð sem mörkuð hefur verið til að mæta betur þörfum viðskiptavina og auka sýnileika lykilupplýsinga um rekstur, fjárhag og umhverfismál ásamt því að stuðla að auknum hraða lykilferla með tilheyrandi hagræðingu í rekstri.

Sem dæmi um það tók Reginn upp nýtt verklag við undirritanir skjala með því að bjóða upp á rafrænar undirritanir í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Taktikal. Lausnin hefur komið að góðum notum, sparað ófá sporin og einfaldað þjónustu við viðskiptavini sem hefur verið sérstaklega mikilvægt nú á tímum heimsfaraldurs.

Segja má að kjarninn á stafrænu vegferðinni hafi verið markaður með nýjum þjónustuvef viðskiptavina („mínar síður“) sem fór í loftið um mitt ár.  Á þjónustuvefnum geta viðskiptavinir með einföldum og öruggum hætti nálgast helstu grunnupplýsingar er varða viðskipti við Regin og dótturfélög, svo sem aðgengi að rafrænum reikningum, hreyfingayfirlitum, handbókum, samningum og tengiliðalistum. Ennfremur er með þjónustuvefnum búið að koma á fót öruggum vettvangi fyrir viðskiptavini til að miðla upplýsingum til Regins sem auðveldar sjálfvirka úrvinnslu og reikningagerð.  Af þessu mun hljótast töluvert rekstrarhagræði til framtíðar litið ásamt því að draga úr áhættu og villuhættu við umsýslu gagna. Auk þess að þeir leigutakar sem nýta snjallsorp geta nálgast upplýsingar um sorpflokkun sína á þjónustuvefnum. 

Á komandi misserum verður haldið áfram að þróa nýjar lausnir og bæta við upplýsingum inn á þjónustuvefinn.  Sérstök áhersla verður lögð á að setja upp greinargóð mælaborð sem gefa viðskiptavinum mikilvæga innsýn fyrir daglegan rekstur í viðkomandi húsnæði. Sem dæmi geta allir rekstaraðilar í Smáralind nú þegar séð nákvæmar upplýsingar um fjölda gesta sem heimsækja Smáralind á degi hverjum og samanburð á milli ára. Einnig verður hugað að áframhaldandi þróun á upplýsingagjöf til leigutaka um rekstrarþætti eins og orkunotkun.

Græn vegferð Regins

Á síðastliðnum árum hefur Reginn lagt aukna áherslu á umhverfismál og er það aðeins upphafið að langri grænni vegferð félagsins. Eitt af helstu markmiðum félagsins er að minnka neikvæð umhverfisáhrif frá starfseminni og þarf að vinna að ýmsum málum til að ná því markmiði. Á árinu 2020 var unnið áfram að þróun nýrra lausna og verkefna ásamt innleiðingu og eftirfylgni á þeim verkefnum sem þegar voru hafin. Eitt af umfangsmestu verkefnum ársins voru umhverfisvottanir fasteigna, undirbúningur og eftirfylgni þeirra vinnu sem félagið fór í, samfara vottunar Smáralindar. Mun sú vinna styðja við aukna sjálfbærni Smáralindar og ljóst er að umhverfisvottun fasteigna félagsins og þau verkefni sem unnin eru í framhaldi munu móta fjárfestingaráætlun Regins næstu árin. Önnur stór verkefni voru uppsetning rafbílahleðslna og hjólageymsla í Smáralind, Egilshöll, Höfðatorg og víðar, áframhaldandi þróun á rafrænum lausnum og sjálfvirknivæðingu. Sem dæmi má nefna snjallsorp, þjónustuvef Regins og rafræna reikningagerð. Þessi verkefni styðja öll við sjálfbærnimarkmið félagsins. Á árinu 2021 verður lögð áhersla á að umhverfisvotta fasteignir í leigu til opinberra aðila og hvetja viðskiptavini til að huga að umhverfismálum í rekstri. Þá verður þjónustuvefur Regins virkjaður enn frekar til upplýsingagjafar um rekstarþætti eins og orkunotkun og sorpflokkun. Áframhaldandi þróun í þágu umhverfis mun einkenna verkefni ársins 2021 þar sem frekari þróun á þessum lausnum verður fylgt eftir og nýjum verkefnum ýtt úr vör.

Umhverfisvottun Höfðatorgs

Eitt af lykilmarkmiðum Regins í umhverfislegri sjálfbærni er vottun fasteigna félagsins. Reginn hefur valið að votta sínar fasteignir samkvæmt BREEAM In-use vistvottunarkerfinu sem notað er til að meta og draga úr umhverfisáhrifum og bæta rekstur atvinnuhúsnæðis á hagkvæman og áhættulítinn hátt. Smáralind var fyrsta fasteign Regins til að hljóta umhverfisvottun árið 2019 og var jafnframt fyrsta fasteign á Íslandi til að hljóta BREEAM In-use vottun. Á árinu 2020 hlaut síðan Höfðatorg, samskonar vottun. Með umhverfisvottun fasteigna fær félagið sjálfbærni fasteignanna staðfesta fyrir viðskiptavini, fjárfesta og aðra hagsmunaaðila og staðfestingu þriðja aðila á því að rekstraraðili fylgi bestu stöðlum og kröfum í rekstri. Vottunin hjálpar líkar til við að bera kennsl á þær mögulegu áhættur sem hver fasteign kann að skapa fyrir umhverfið. Með vottunum er félagið einnig að svara eftirspurn viðskiptavina á umhverfisvottuðum eignum sem hefur aukist mjög á síðastliðnu ári.

Framkvæmdaverkefni

Suðurhraun 3

Í upphafi ársins 2020 var gengið frá samningi við Vegagerðina um leigu á Suðurhrauni 3. Samningur var gerður að undangenginni auglýsingu Ríkiskaupa eftir framtíðarhúsnæði fyrir Vegagerðina og er samningurinn til 20 ára. Húsnæðið er alls 5.963 fermetrar og samanstendur af 2.473 fermetrum geymslu og vörulager og 3.490 fermetra glæsilegu skrifstofuhúsnæði þar sem áhersla er lögð á eftirsóknarverðan vinnustað, sveigjanleika húsnæðis, góða hljóð- og innivist ásamt skjólsælum inngarði sem nýta má árið um kring. Auk þess fylgir húsnæðinu 9.000 fermetra af girt geymslu og athafnarsvæði.
Vegagerðin mun sameina alla starfsemi sína á höfðuðborgarsvæðinu í Suðurhrauni 3 og er áætlað að Vegagerðin muni flytja inn og hefja starfsemi í húsinu fyrir mitt ár 2021.

Önnur verkefni

Talsvert var um framkvæmdir í eignasafni Regins á árinu 2020 í tengslum við nýja leigusamninga.

Af helstu verkefnum ársins má nefna að í Bæjarlind 1-3 var innréttuð glæsileg 540 fermetra heilsugæslustöð sem hýsir Geðheilsuteymi HH Suður. Húsnæðið samanstendur af 15 skrifstofum, fullbúnu eldhúsi, fundarherbergjum, salernum og móttöku í hæsta gæðaflokki auk hjólageymslu á lóð fyrir starfsfólk.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tók í notkun nýinnréttaða lögreglustöð á Brekkustíg 39 á fyrri hluta árs. Um er að ræða 1.097 fermetra hágæða skrifstofurými sem samanstendur af opnum teymisrýmum, lokuðum skrifstofum og yfirheyrsluherbergjum.

Í Miðhrauni 15 var standsett 1.066 fermetra lagerhúsnæði fyrir 66°Norður sem afhent var um mitt ár. Innréttaðar voru glæsilegar skrifstofur fyrir Premis á um 1.100 fermetra hæð í Skútuvogi 2 og á 1. hæð í sama húsi opnaði Minigarðurinn í 1.850 fermetra leigurými þar sem m.a. er að finna 18 holu minigolfvöll, sportbar og veitingastað. Í Miðellu 2 var standsett 800 fermetra bílasprautunarverkstæði fyrir HS bílaréttingar og sprautun. Standsettar voru glæsilegar höfuðstöðvar fyrir Wise í Ofanleiti 2 á um 1.580 fermetra hæð.

Á Garðatorgi 4 var innréttað 180 fermetra kaffihús fyrir Te og Kaffi. Gert er ráð fyrir að allt að 55 gestir komist fyrir í kaffihúsinu og opni snemma árs 2021.

Mathöll var innréttuð í Borgartúni 29 í 500 fermetra rými. Gert er ráð fyrir opnun fyrri hluta árs 2021.

Á Hafnartorgi austan Geirsgötu hófst undirbúningur að standsetningu útleigurýma á jarðhæð, stærð húsnæðis er um 2.700 fermetrar. Gert er ráð fyrir samsetningu verslana og veitingastaða í húsnæðinu.

Verslun Líf og List í Smáralind var stækkuð þar sem steypt var ný gólfplata og nýir fermetrar urðu til í Smáralind.

Einnig var lokið við endurbyggingu á Dalshrauni 15 eftir brunatjón. Um er að ræða 700 fermetra gistiheimili með 20 herbergi sem eru búin eldhúsaðstöðu og salernum auk sameiginlegs þvottahúss.