Stjórnarhættir Regins
2020

Stefna og framtíðarsýn

Félagið hefur viðhaldið þeirri stefnumótun sem innleidd var árið 2019 og formlega kynnt á aðalfundi félagsins. Við gerð stefnumótunar var haft að leiðarljósi að framundan væru breyttir tímar í samfélaginu, hjá viðskiptavinum, atvinnulífi og þörf fyrir umhverfisvænar lausnir.

Meginatriði í stefnu félagsins sem fylgt hefur verið síðustu tvö árin eru.:

  • Félagið er brautryðjandi í mótun og rekstri fasteigna. Skapar aðlaðandi staði þar sem fólk vill lifa, leika og starfa.
  • Viðskiptavinurinn í öndvegi – komið er til móts við viðskiptavini og þróaðar bestu lausnir á hverjum tíma með m.a. rafrænum lausnum.
  • Eftirsóttir kjarnar – félagið vill byggja kjarna sem samanstanda af fasteignum, íbúðarhúsnæði, þjónustu, menntun og afþreyingu. Félagið álítur slíka blöndu höfða til nýrra neytenda auk þess að vera til hagsbóta fyrir umhverfið.
  • Lausnir mótaðar með opinberum aðilum – fundinn verði grundvöllur fyrir samvinnu einka- og opinbera aðila. Samfélagslegur ávinningur verður skilgreindur og samstarf við opinbera aðila aukið til framtíðar.
  • Félagið nýti stafræna tækni til að efla starfsfólk og bæta þjónustu og upplifun viðskiptavina með auknum hraða á ferlum og meiri sýnileika á lykilupplýsingum um rekstur, fjárhag og umhverfismál.

Skipurit félagsins

Nýtt stjórnskipulag tók gildi hjá félaginu í lok árs 2019 þegar nýtt skipurit var kynnt í kjölfar stefnumótunarvinnu stjórnar og stjórnenda, var það liður í að styrkja félagið og styðja við þær framtíðaráherslur sem stefnumótun lagði. Frá þeim tíma hefur verið unnið að því að efla og styrkja afkomueiningar félagsins bæði stjórnunarlega og faglega.

Nú í fyrsta sinn er afkoma einstakra afkomueininga byggt á nýju stjórnskipulagi birt í ársreikningi. Þessar einingar eru: Verslun og þjónusta, Samstarfs- og leiguverkefni með opinberum aðilum og Atvinnuhúsnæði og almennur markaður.

Hver eining er undir stjórn framkvæmdastjóra sem hefur það hlutverk að byggja upp og viðhalda sérþekkingu á viðkomandi sviði.

Forstjóri fer með og ber ábyrgð á daglegum rekstri félagsins og fer með ákvörðunarvald í málum sem ekki ber að fara með fyrir stjórn. Forstjóri er jafnframt talsmaður félagsins út á við.

Stjórnarhættir

Stjórn félagsins álítur góða stjórnarhætti gott verkfæri til að skýra hlutverk stjórnar og forstjóra hverju sinni á sama tíma og hagsmunir hluthafa félagsins eru hafðir að leiðarljósi. Einnig er það mat stjórnenda félagsins að með fylgni við góða stjórnarhætti sé stuðlað að gagnsæi og traustum samskiptum milli hluthafa, stjórnar, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaðila. Með því er grunnurinn lagður að ábyrgri stjórnun þar sem hlutverk eru skilgreind með réttum hætti.

Stjórn og stjórnendur félagsins hafa sett sér það markmið að viðhafa og stuðla að fyrirmyndar stjórnarháttum. Félagið fylgir gildandi Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja en fyrirtækjum með skráð verðbréf á markaði ber að fylgja leiðbeiningunum.

Í ágúst 2020 fékk félagið viðurkenningu sem fyrirmyndafyrirtæki í góðum stjórnarháttum frá Stjórnvísi, umsjónaraðila viðurkenningarferlisins. Á árinu 2020 hlaut félagið einnig Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í kjölfar jafnlaunagreiningar. Félagið hefur lokið forúttekt hjá viðurkenndum óháðum aðila í jafnlaunavottun og vottunarúttekt er fyrirhuguð á árinu.

Félagið hefur jafnframt hlotið viðurkenningu sem Framúrskarandi fyrirtæki eftir greiningu Creditinfo samfleytt frá árinu 2014 og verið þar í fremstu röð.

Stjórnarhættir Regins eru í samræmi við lög og reglur sem gilda um starfsemi félagsins s.s. ákvæði hlutafélagalaga nr. 2/1995, ársreikningalaga nr. 3/2006, samkeppnislaga nr. 44/2005 og laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, ásamt gildandi leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.