Almennar fréttir / 15. mars 2021

Reginn stofnaðili í "Römpum upp Reykjavík"

 

 Nú hefur verkefninu Römpum upp Reykjavík verið hrundið af stað og er markmiðið að koma fyrir 100 römpum í Reykjavík fyrir fólk á hjólastólum, eins fljótt og auðið er. Reginn hf. er einn fimmtán stofnaðila sem koma að verkefninu og hafa þeir sett á laggirnar sérstakan sjóð sem mun standa straum af megninu af kostnaði verslunar- og veitingahúsaeigenda við að setja upp ramp hjá sér. Hafa þeir tækifæri til að fá allt að 80% af rampinum endurgreidd úr sjóðnum.  

„Ég þekki það manna best að ætla að sækja einhvern viðburð, fara á veitingastað eða einfaldlega í verslun sem er mér ekki aðgengileg. Mörgum rekstraraðilum hefur reynst kostnaðurinn fyrirstaða því oft er um viðkvæman rekstur að ræða og því mikilvægt að tryggja aðgengi að fjármagni. Því er ég mjög stoltur af þessu verkefni og þakklátur öllum þeim sem hafa ákveðið að leggja Römpum upp Reykjavík lið,“ segir Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og forsprakki Römpum upp Reykjavík, á blaðamannafundi um verkefnið.

Með römpunum er aðgengi að verslunum og veitingastöðum stóraukið fyrir alla. Unnið verður að uppsetningunni í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvöld en borgin er stofnaðili að verkefninu og mun tryggja góðan framgang þess. Auk Haralds tóku Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, til máls. Öll voru þau sammála um mikilvægi þess að tryggja betra aðgengi fyrir fólk á hjólastól og fagna tilkomu verkefnisins. 

Stofnaðilarnir 15 eru: Byko, Haraldur Þorleifsson, Kvika banki, Reginn, Reykjavíkurborg, Össur, Félagsmálaráðuneytið, Hagar, Íslandsbanki, Stjórnarráðið, Aton.JL, Brandenburg, ÍAV, Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalagið.

 

 

Annað fréttnæmt

15. maí

Hverfahleðsla við Smáralind

Það gleður okkur að kynna „hverfahleðslu“ við Smáralind. Með henni bjóðum við nágrönnum okkar og öðrum upp á hefðbundna hverfahleðslu frá klukkan 19:00 til 08:00 að morgni þar sem slegið er verulega af mínútugjaldi.
19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.