Almennar fréttir / 28. apríl 2017

Nýtt alhliða íþróttahús eflir íþróttaiðkun í Grafarvogi

Í dag var tekin fyrsta skóflustunga að nýju alhliða íþróttahúsi  við Egilshöll.  Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, Sunna Hrönn Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri Egilshallar og Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis  ásamt fulltrúum og íþróttafólki frá Fjölni tóku skóflustunguna.

Með hinu nýja alhliða íþróttahúsi, sem verður 2.500 fermetrar að stærð, er verið að bæta og efla valkosti til íþróttaiðkunar í Egilshöll og efla hið fjölbreytta starf Fjölnis og annarra íþróttafélaga. Gert er ráð fyrir að nýbyggingin verði tekin í notkun í byrjun næsta árs.


Stórt skref fyrir framtíð Fjölnis

Húsið rúmar tvo handbolta- og körfuboltavelli en þar fá körfuknattleiks- og handboltadeildir æfinga- og keppnisaðstöðu, Borgarholtsskóli fær aðstöðu fyrir afreksíþróttabraut ásamt öðru íþróttastarfi.

Fjölnir er þegar með fimleikahús, karateaðstöðu, knatthús og fótboltavelli utanhúss ásamt skrifstofu- og félagsaðstöðu. Að mati forsvarsmanna Fjölnis er verið að stíga stórt skref í framtíðaruppbyggingu félagsins í Egilshöll með hinu nýja húsi. Reykjavíkurborg leigir meirihluta tíma í hina nýja húsi fyrir fjölbreytt íþróttastarf Fjölnis og fleiri félaga.

Sameiginlegt rekstrarfélag tryggi afkomu hússins

Kostnaðaráætlun byggingarinnar nemur um 780 milljónum króna. Reginn byggir íþróttahúsið og mun einnig sjá um rekstur þess. Félagið mun afla hluta nauðsynlegra leigutekna vegna fjárfestingarinnar frá þriðja aðila. Arkitekt hússins eru Alark arkitektar og verkfræðihönnun og verkefnisstjórn annast Verkís hf.

Reginn og Fjölnir hafa sammælst um stofnun rekstrarfélags með það að markmiði að tryggja afkomu hins nýja íþróttahúss. Hluta tekna verður varið til að efla almenna íþróttastarfsemi í Egilshöll og starfsemi Fjölnis. Ennfremur verður Fjölnir gerður sýnilegri í húsinu með tilfærslu á skrifstofu og félagsaðstöðu félagsins í anddyri Egilshallar.


Íþróttir, afþreying, skemmtun og heilsuefling

Á síðasta ári heimsóttu 1,2 milljón manns Egilshöll, en það gera 3.300 manns á dag að meðaltali. Sunna Hrönn Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri Egilshallar segir að húsið sé gott dæmi um vel heppnað samstarfsverkefni sveitarfélags og einkaaðila. Í Egilshöll hefur á liðnum árum verið að þróast gríðarlega öflug starfsemi á sviði Íþrótta, afþreyingar, skemmtunar og heilsueflingar.

 

Annað fréttnæmt

15. maí

Hverfahleðsla við Smáralind

Það gleður okkur að kynna „hverfahleðslu“ við Smáralind. Með henni bjóðum við nágrönnum okkar og öðrum upp á hefðbundna hverfahleðslu frá klukkan 19:00 til 08:00 að morgni þar sem slegið er verulega af mínútugjaldi.
19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.