Sjálfbærniskýrsla
2021

Drifkraftur í sjálfbærni

Reginn leggur mikla áherslu á sjálfbærni í sínum rekstri og leggur kapp á að hvetja viðskiptavini til þess sama og hafa þar með enn víðtækari áhrif á sjálfbæra þróun. Félagið hefur farið í ýmsar aðgerðir og verkefni með það að markmiði að minnka neikvæð umhverfisáhrif og auka umhverfisvitund sem um leið eflir félagið. Samvinna með viðskiptavinum er mikilvægur þáttur til að ná árangri á þessu sviði 

Sem fasteignafélag sem sér um rekstur í fasteignum í um þriðjungi eignasafns síns er Reginn í einstakri aðstöðu til að minnka umhverfisáhrif fasteigna sinna. Helstu neikvæðu áhrifin sem félagið hefur á umhverfið er losun gróðurhúsalofttegunda frá fasteignum þess á rekstrartíma þeirra. Stór þáttur í að mæta þessum áhrifum er umhverfisvottun fasteigna. Með umhverfisvottun fasteigna er m.a. hægt að greina þær áhættur sem hver bygging skapar fyrir umhverfið auk þess sem þær eru staðfesting þriðja aðila á því að rekstraraðili fylgi bestu stöðlum og kröfum í rekstri fasteigna.  

Á árinu 2019 mótaði Reginn sjálfbærnistefnu sína sem tekur á umhverfislegri, félagslegri og efnahagslegri sjálfbærni og tengist þeim lykilmarkmiðum sem félagið leggur áherslu á. Samhliða setti félagið sér mælanleg markmið sem endurskoðuð eru reglulega með reynslu og árangur til hliðsjónar. Árangur í sjálfbærni er mældur með markvissum hætti og starfsmenn, viðskiptavinir og fjárfestar upplýstir um markmiðin og þann árangur sem næst. Í fjárfestingum og rekstri fasteigna er horft til langs tíma. Það er trú félagsins að áhersla á sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri félagsins og styrki fjárhagslega arðsemi til lengri tíma litið. 

Umhverfisleg

Draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda

Minnka orkunotkun og auka
sorpflokkunarhlutfall

Fjölga BREAAM vottuðum eignum

FÉLAGSLEG

Tryggja öruggt starfsumhverfi og fækka veikindadögum

Virða mannréttindi í allri
virðiskeðju félagsins

Viðhalda jöfnum launum kynjanna

EFNAHAGSLEG

Auka hlutfall grænnar fjármögnunar sem hlutfall af fjármögnum

Eignafjárhlutfall ekki undir 30%

Arðsemi eiginfjár að jafnaði hærri en 10%

Lykilmarkmið

Lögð er áhersla á að samþætta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við rekstur félagsins. Félagið leggur megináherslu á fimm markmið sem daglegur rekstur þess hefur mest áhrif á: heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, sjálfbærar borgir og samfélög, ábyrga neyslu og framleiðslu og aðgerðir í loftslagsmálum. 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem áhersla er lögð á í rekstri

 

 

Í átt að sjálfbærri framtíð

Í átt að sjálfbærri framtíð

Reginn er leiðandi fasteignafélag sem telur grænar áherslur fyrirtækja vera einn af lykilþáttum í rekstri þeirra. Með sjálfbærni að leiðarljósi verða til ný viðskiptatækifæri og fyrirtæki verða samkeppnishæfari.

Félagið vinnur að fjölmörgum verkefnum til að tryggja áframhaldandi þróun í átt að sjálfbærni í eignasafninu og í rekstri þess. Unnið var að stefnuáherslum félagsins og myndaðir vinnuhópar sem unnu ötullega að ýmsum verkefnum sem þar voru skilgreind. Verkefnin snéru meðal annars að lausnum til að auka sjálfbærni í rekstri og þjónustu við viðskiptavini ásamt þróun frekari viðskiptatækifæra. Samstarf við viðskiptavini er lykilforsenda þess að ná til stærri hluta eignasafnsins og enn meiri árangri í umhverfismálum. Verkefnin eru ærin og mikilvæg og ljóst er að megináhersla verður á umhverfismál, sjálfbærni og samfélagslegar áherslur í rekstri félagsins til framtíðar. Reginn er rétt að byrja sína grænu vegferð.  

Helstu verkefni sem unnin voru og tengdust grænni vegferð félagsins.

Grænir leigusamningar

Sífellt meiri eftirspurn er eftir samstarfi leigutaka og leigusala um aukna sjálfbærni í hinu leigða húsnæði. Það sýna bæði þjónustukannanir og auknar fyrirspurnir viðskiptavina um orkunotkun og sorpmagn. Reginn hefur komið til móts við þessar kröfur með því að bjóða upp á græna leigusamninga og var fyrsti undirritaður 2021. Samningurinn felur m.a. í sér að leigutaki setur sér mælanleg markmið, að lágmarki tengd minnkun sorps, orkunotkunar og auknu vægi vistvænna samgangna. Markmið félagsins er að þriðjungur leigusamninga verði orðnir grænir árið 2025. Einnig var útbúin handbók um sjálfbæran rekstur fasteigna til leiðbeiningar og upplýsinga. 

Grænar samgöngur 

Reginn leggur áherslu á að bæta grænar samgöngur við fasteignir sínar með rafbílahleðslum, hjóla- og hlaupahjólastæðum og mun halda áfram á þeirri vegferð. Samræmist það einnig þeim kröfum sem BREEAM In-use vottunin gerir til vottaðra fasteigna.  

Rafhleðslustöðvum fer fjölgandi um land allt og eru eignir Regins enginn eftirbátur í þeim efnum. Til að hvetja til orkuskipta og mæta eftirspurn viðskiptavina hefur Reginn sett sér það markmið að fjölga rafhleðslustöðvum um 30 á ári til ársins 2025. Stöðvarnar þjóna viðskiptavinum og gestum þeirra en ekki síður nærliggjandi byggðum, m.a. á nóttunni, og styðja við græna vegferð í nærumhverfi eignasafnsins. Þannig er hægt að hámarka notkun stöðvanna með samnýtingu. Í lok árs 2021 voru rafbílahleðslur á vegum Regins orðnar 45 talsins, flestar staðsettar við kjarnasvæði félagsins, Smáralind, Höfðatorg og Egilshöll. Á stuttum tíma hefur aukin tækni og fjölgun rafknúinna farartækja gert fleirum kleift að ferðast um á hjólum og hlaupahjólum. Aukin eftirspurn hefur samhliða því verið eftir stæðum fyrir hjól og hlaupahjól við eignir Regins. Í takt við þessa þróun hefur félagið sett sér það markmið að fjölga um 100 stæði á ári til ársins 2025. Aðstæður til geymslu þessara farartækja eru mismunandi við eignir félagsins og voru ýmsar lausnir skoðaðar á árinu.  

Rafrænar orkuupplýsingar 

Þróun á þjónustuvef Regins tekur mið af sjálfbærniáherslum félagsins. Upplýsingar um snjallsorp, sorpflokkun og magn á Hafnartorgi voru þegar aðgengilegar á vefnum. Bættust upplýsingar um rafmagnsnotkun leigutaka í Smáralind þar inn á árinu og munu gögn um fleiri eignir bætast við. Aðgengi að umhverfisupplýsingum gerir fyrirtækjum kleift að setja sér mælanleg umhverfismarkmið og fylgjast með árangri. Upplýsingagjöf um rekstrarþætti gerir viðskiptavinum einnig kleift að fylgjast með þróuninni og verða þannig meðvitaðri um kostnaðarþætti. Þá er unnið að þróun fleiri lausna til að miðla öðrum umhverfisupplýsingum sem eftirspurn hefur verið eftir. 

Orkunotkun á þjónustuvef

Þróun snjallsorps 

Notkun snjallsorps hefur gefið góða raun og flokkun þar sem lausnin er þegar í notkun verið marktækt betri en í öðrum eignum. Lausnin hvetur viðskiptavini til aukinnar sorpflokkunar sem að sama skapi lækkar kostnað þeirra vegna sorps en upplýsingar um sorpmagn og flokkun eru aðgengilegar á þjónustuvef.

Þróun snjallsorpsins hélt áfram á árinu 2021 og var einblínt á útfærslu lausnarinnar fyrir Smáralind. Aðlaga þurfti lausnina að stærra húsi, fleiri notendum og margföldu sorpmagni samanborið við fyrri lausnir. Stefnt er að því að taka aðstöðuna í notkun í mars 2022. Snjallsorpið í Smáralind verður staðsett í vörumóttöku undir húsinu og munu sorprennur liggja af efri hæð niður í flokkunarstöðina viðskiptavinum til hægðarauka. Mikill meirihluti sorps frá eignum Regins í rekstri kemur frá Smáralind og standa því vonir til þess að sorpflokkunarhlutfall félagsins batni til muna með innleiðingu lausnarinnar þar. Stefnt er að áframhaldandi innleiðingu snjallsorp í fleiri eignum félagsins. 

Pappírslaus viðskipti 

Þróun stafrænna lausna á ýmsum sviðum hefur stutt við pappírslaus viðskipti félagsins. Rúmlega 50% aukning varð á undirritun rafrænna skjala samanborið við árið 2020. Allir samningar ársins 2021 voru undirritaðir rafrænt nema þeir sem þarf að þinglýsa. Innleiðing rafrænnar skeytamiðlunar studdi einnig við pappírslaus viðskipti en um áramótin 2020 og 2021 var útprentun reikninga alfarið hætt. Reikningar eru nú aðgengilegir í gegnum skeytamiðlun, með tölvupósti eða á þjónusvef. Í lok árs 2021 var útprentun þeirra reikninga sem berast félaginu með tölvupósti og uppfylla skilyrði um reikninga úr rafrænu bókhaldi hætt.  

Sjálfbær rekstur fasteigna 

Handbók um sjálfbæran rekstur fasteigna var útbúin til að styðja við grænu leigusamningana. Henni er ætlað að upplýsa viðskiptavini um leiðir til aukinnar sjálfbærni í leigurýminu, hvaða verkefni þarf að vinna til að ná því markmiði auk þess sem í henni má finna ýmsan fróðleik sem veitir betri innsýn í hvað felst í sjálfbærni. Handbókin fjallar einnig um leiðir til að auka vellíðan fólks í og við byggingar, en heilsa og vellíðan er einmitt eitt af því sem Reginn leggur áherslu á í sjálfbærnistefnu sinni.  

Aukin þekking 

Þekkingaröflun og menntun starfsfólks á málefnum tengdum sjálfbærni fékk mikið vægi á árinu og ákveðnum sjálfbærniáfanga var náð hjá félaginu þegar ráðinn var starfsmaður með sérþekkingu í sjálfbærum fasteignum. Starfsfólk fór á  námskeið og fyrirlestra tengda sjálfbærni ásamt því að starfsmaður fékk staðfestingu sem viðurkenndur fagaðili í vottun fasteigna. 

Ýmislegt getur haft áhrif á líðan fólks á vinnustöðum og leikur heilbrigði bygginga þar oft á tíðum stórt hlutverk. Til að rýna betur aðstæður í byggingunni er meðal annars hægt að fylgjast með innivist, svo sem loftgæðum, hita- og rakastigi ásamt því að mæla aðra þætti sem geta haft áhrif. Til eru ýmis mælitæki sem mæla gildi þessara þátta sem eru einföld í notkun og skila greinargóðum upplýsingum til notenda. Þannig má stuðla að umhverfisvænni rýmum með heilbrigðara innanhússumhverfi og betri nýtingu auðlinda sem getur skilað sér í lægri rekstrarkostnaði. Á árinu aflaði starfsfólk Regins sér sérþekkingar á sviði innivistar í fasteignum og vill fyrirtækið leggja meiri áherslu á þennan þátt í rekstri fasteigna, þjónustu og vöruúrvali til viðskiptavina.  

Umhverfisvottanir 

Á síðastliðnum árum hafa verið gerðar greiningar á þeim þáttum sem hafa hvað mest neikvæð umhverfisáhrif í rekstri eigna félagsins. Umhverfisvottanir fasteigna spila stórt hlutverk í að stemma stigu við þeim umhverfisáhrifum. Markmiðið er að votta 50% af eignasafni félagsins fyrir lok árs 2025 en með vottun á núverandi eignasafni er hægt að ná árangri fyrr en ef farið væri í vottun nýbygginga.  

Reginn hefur vottað þrjár af stærstu fasteignum eignasafnsins með BREEAM In-use vottun, Smáralind, Katrínartún 2 og Borgartún 8-16 sem alls telja 26% af eignasafni félagsins. Þá er undirbúningur að endurvottun Smáralindar og frumvottun Egilshallar hafinn og stefnt á að ljúka báðum þeim verkefnum á árinu með vottunum eignanna. BREEAM In-use vottun er hönnuð til að meta og draga úr umhverfisáhrifum og bæta rekstur atvinnuhúsnæðis á hagkvæman og áhættulítinn hátt. Vottun er að auki staðfesting þriðja aðila á því að rekstraraðili fylgi bestu stöðlum og kröfum í rekstri fasteigna. Umhverfisvottun fasteigna auðveldar upplýsingagjöf til leigutaka um rekstrarþætti eins og orkunotkun og sorpflokkun sem æ meiri eftirspurn er eftir. 

 

 

Sjálfbærni í tölum

Sjálfbærni í tölum

Reginn sér um rekstur í þriðjungi eignasafnsins og birtir ársfjórðungslega umhverfisuppgjör fyrir þær eignir. Orkunotkun, sorp og vatnsnotkun er tilgreint frá sex fasteignum þar sem Reginn sér um rekstur. Þessar fasteignir eru Smáralind, Egilshöll, Höfðatorg, Áslandsskóli og leikskólarnir Tjarnarvellir og Hörðuvellir. Í öðrum eignum sér félagið ekki um daglegan rekstur heldur er hann í höndum leigutaka. Reginn er því í einstakri aðstöðu til að hafa áhrif og til að minnka neikvæð umhverfisáhrif fasteigna sinna en fasteignir eru ábyrgar fyrir stórum hluta af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  

Teknar hafa verið saman upplýsingar ársins 2021 fyrir þessar eignir og eru þær birtar hér. Aðrar félags- og stjórnarháttalegar upplýsingar eiga við um samstæðuna í heild. Sjá nánar í tilvísunartöflu sem sett er upp í samræmi við UFS leiðbeiningar Nasdaq á Íslandi og Norðurlöndunum.

Reitun gerði á árinu 2021 UFS (umhverfislegt, félagslegt og stjórnarháttalegt) áhættumat á félaginu en í því felst mat á hvernig félagið stendur frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum ásamt stjórnarháttum. Matið er framkvæmt fyrir hönd fjárfesta og er gert á útgefendum verðbréfa.  

Reginn fékk góða einkunn með 80 stig af 100 mögulegum, endaði í flokki B1 og hækkaði sig um 6 stig á milli ára.

Er þetta mesti fjöldi stiga sem fasteignafélag hefur fengið í UFS mati Reitunar. Félagið er þar vel fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum í samanburði við innlenda útgefendur sem hafa farið í samskonar mat hjá Reitun.  

Reginn hefur einnig fengið góða einkunn í þeim birgjamötum sem gerð hafa verið á félaginu. Ljóst er að slík möt eru orðin æ veigameiri þáttur í mati þriðja aðila og viðskiptavina á hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að UFS þáttum. 

Umhverfið 

Til að stuðla að umhverfislegri sjálfbærni hefur félagið sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri og við framkvæmdir ásamt því að kolefnisjafna þá losun sem tengist starfsemi félagsins. Félagið leggur sig fram við að nýta náttúruauðlindir með ábyrgum hætti og leita leiða til að draga úr notkun þeirra. Notkun á vörum sem eru skaðlegar umhverfinu er lágmörkuð og áhersla lögð á að draga úr magni sorps og auka flokkunarhlutfall þess. Á árinu 2021 setti Reginn sér því ýmsar stefnur í umhverfismálum sem styðja við markmið félagsins og auka áherslu á sjálfbærni. Þær eru stefna um sjálfbær innkaup, orkunotkun, vatnsnotkun, endurvinnslu og stefna um endurnýjun kæliefna. Lykilmarkmið félagsins í umhverfislegri sjálfbærni eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka orkunotkun og auka sorpflokkunarhlutfall ásamt því að fjölga BREEAM vottuðum eignum. 

Losun gróðurhúsalofttegunda 

Það sem helst orsakar losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Regins er hvers kyns orkunotkun sem kemur frá ýmsum þáttum í rekstrinum. Félagið hefur því skilgreint orkunotkun sem helsta áhættuþátt á þessu sviði. Í byrjun árs 2020 setti félagið sér það markmið að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 3% á fermetra fyrir lok árs 2021 miðað við losun árið 2019. Takmarkinu var náð þar sem í lok árs 2021 var losun búin að minnka um 3%. Langtímamarkmið er að minnka losun um 10% á fermetra fyrir lok árs 2025 miðað við losun árið 2019. 

Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi ársins 2021 var kolefnisjöfnuð í gegnum Sameinuðu þjóðirnar (United Nations Carbon offset platform) og með endurheimt votlendis hjá Votlendissjóði.  Er þetta í þriðja skipti sem Reginn kolefnisjafnar starfsemi sína. Með kolefnisjöfnun er verið að jafna út þá losun gróðurhúsalofttegunda sem kemur frá starfsemi félagsins með því að draga úr losun þessara lofttegunda annars staðar.  

Orkunotkun  

Orkunotkun er breytileg eftir eðli þeirrar starfsemi sem er í viðkomandi húsnæði. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna orkuframleiðslu vegur þyngst í rekstri fyrirtækisins. Þessi orkunotkun er öll notkun á heitu vatni, bæði til upphitunar og heitu neysluvatni sem og öll raforka sem viðkomandi eignir Regins nota. Einnig er hluti af heildarorkunotkuninni öll notkun eldsneytis á farartæki í eigu félagsins. Reginn vaktar orkunotkun í eignum í rekstri og eru frávik í orkunotkun greind.  

Raforka 

Reginn nýtir raforku við ýmsa rekstrarþætti fasteigna sinna s.s. lýsingu, loftræsingu, lyftur, rúllustiga og fjölmörg húskerfi. Minnkun raforkunotkunar á fermetra 2021 miðað við árið 2019 var 12%. Langtímamarkmið er að minnka raforkunotkun um 16% á fermetra fyrir lok árs 2025 miðað við losun árið 2019. 

Heitt vatn 

Heitt vatn er helst notað í upphitun, sem neysluvatn og í snjóbræðslu. Árið 2019 setti félagið sér það markmið að minnka heitavatnsnotkun eigna í rekstri um 5% á hvern fermetra fyrir lok árs 2025. Minnkun árið 2021 nam 3% miðað við árið 2019. 

Sorpflokkun 

Reginn leggur áherslu á sorpflokkun og stuðning við leigutaka í þeim efnum sem hluta af grænni vegferð félagsins. Einnig hefur sorp og meðhöndlun þess mikil umhverfisáhrif og því er sorp flokkað sem ein af áhættum frá rekstri félagsins.  

Markmið í sorpmálum er tvíþætt, annars vegar að auka sorpflokkun þar sem hlutfall almenns sorps fer minnkandi og hins vegar að draga úr heildarmagni sorps sem til fellur frá eignum félagsins. Langstærsti hluti þess sorps sem fellur til er þó á vegum leigutaka í Smáralind. Er því mikilvægt að auka vitund um  mikilvægi flokkunar og þeim efnahagslega og umhverfislega ávinningi sem hlýst af aukinni sorpflokkun. Vonir standa til þess að snjallsorp í Smáralind muni bæta sorpflokkunarhlutfall til muna. Hlutfallið 2021 var 45% en langtímamarkmiðið er að ná sorpflokkunarhlutfalli upp í 70% fyrir lok árs 2025. 

Umhverfisvottanir eigna 

Í upphafi árs 2019 var tekin ákvörðun um að hefja BREEAM In-use umhverfisvottun á eignum í eignasafni Regins. Markmið var sett um að votta 50% eignasafnsins fyrir lok árs 2025 og hófst vegferðin í Smáralind 2019. Árið 2020 var Katrínartún 2 vottað og þar með var hlutfall vottaðra eigna orðið 23%. Í lok árs 2021 var gögnum skilað inn til vottunar Borgartúns 8-16 og í dag eru því 26% eignasafnsins vottuð. 

Fólkið 

Með félagslega sjálfbærni að leiðarljósi vill Reginn tryggja vellíðan fólks og öruggt og heilbrigt umhverfi ásamt því að standa vörð um mannréttindi allra þeirra sem að starfseminni koma, í öllum hlekkjum virðiskeðjunnar. Farið var í ýmsar aðgerðir á árinu 2021 til að stuðla að því. Þær megináhættur er tengjast félagslegum þáttum eru heilsa og öryggi starfsmanna og verktaka. Reginn hefur sett sér lykilmælikvarða í tengslum við félagslega þætti sem eru að stuðla að öruggu starfsumhverfi og fækka veikindadögum starfsmanna, virða mannréttindi í allri virðiskeðju félagsins ásamt því að viðhalda jöfnum launum karla og kvenna. 

Samfélagsábyrgð 

Í sjálfbærnistefnu félagsins er áréttað að hvers kyns spilling, mútur af einhverju tagi eða önnur ólögleg starfsemi sé ekki liðin undir neinum kringumstæðum. Reginn leggur því áherslu á mikilvægi þess að samningsaðilar sýni viðleitni til samfélagslegrar ábyrgðar og hugi að umhverfismálum í allri starfsemi sinni. Til að festa í sessi mikilvægi þessa og sporna gegn áhættu á mannréttindabrotum gerir félagið því ákveðnar kröfur til sinna leigutaka, verktaka og birgja og var nýjum ákvæðum þess efnis bætt inn í staðlað form leigu-, verk- og þjónustusamninga árið 2021. Verktökum er þannig gert að vinna að samfélags- og keðjuábyrgð m.a. með því að tryggja að starfsemi þeirra brjóti ekki gegn almennum mannréttindum og sýna ábyrga hegðun í umhverfismálum. 

Velferð og heilsa 

Reginn leggur mikið upp úr velferð, öryggi og heilsueflingu starfsmanna þar sem stuðlað er að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Félagið veitir starfsmönnum ýmsa styrki til að hvetja til þessa og stendur fyrir námskeiðum til að auka öryggi starfsmanna. Á árinu 2021 var stofnaður sérstakur vinnuhópur um velferð starfsmanna. Unnið var að stefnu og aðgerðaráætlun gegn áreiti, ofbeldi og einelti og haldnir kynningarfundir. Þá var unnið að áætlun um endurmenntun starfsmanna til að efla þekkingu og reynslu, starfsmannakannanir framkvæmdar og niðurstöður þeirra kynntar starfsfólki. Lagður var grunnur að vikulegum upplýsingafundum þar sem stefnur og áherslur eru kynntar, verkefni hinna ýmsu sviða og samstarfsmanna. 

Jafnrétti

Reginn hefur sett sér jafnlauna- og jafnréttisstefnu en markmið er að tryggja jafnræði og sjá til þess að starfsmenn njóti jafnra kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni. Eitt af lykilmarkmiðum Regins tengt félagslegri sjálfbærni er að viðhalda jöfnum launum kynjanna. Reginn fór í gegnum vottunarúttekt á jafnlaunakerfi árið 2021 og stóðst hana. Félagið hlaut að auki gullmerki jafnlaunaúttektar PwC. 

Starfs- og siðareglur 

Starfs- og siðareglur Regins gilda um alla starfsemi, starfsmenn og stjórnendur samstæðunnar. Við ráðningu staðfesta starfsmenn að þeir hafi lesið, skilið og muni starfa eftir reglunum. Reglurnar endurspegla mikilvæg gildi á borð við áreiðanleika, sanngirni og jafnræði og eiga að stuðla að því að  starfsmenn félagsins komi fram af heiðarleika og trúnaði auk þess að vera bundnir þagnarskyldu. Reginn varðveitir persónuupplýsingar á öruggan hátt í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd. Reginn hefur sett sér persónuverndarstefnu til að tryggja öryggi persónuupplýsinga ásamt því að setja sér samkeppnisstefnu. 

Á réttri braut 

Á þrettánda starfsári sínu er Reginn ennþá í vexti og þróun og er félagið afar stolt af þeim viðurkenningum sem það hefur hlotið í gegnum árin. Á árinu 2021 hlotnuðust félaginu viðurkenningar sem eru staðfesting þess að það sé á réttri braut. Reginn hlaut viðurkenningu sem bæði framúrskarandi fyrirtæki, fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum og fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri. Þá varð Smáralind efst verslunarmiðstöðva í Íslensku ánægjuvoginni. Jafnframt var gerð jafnlaunagreining á árinu og fékk félagið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC sem þegar hefur verið fjallað um hér að framan. 

Efnahagurinn 

Efnahagsleg sjálfbærni er þriðji grunnþátturinn í sjálfbærnistefnu Regins. Sá þáttur er ekki síður mikilvægur en umhverfis- og félagsleg sjálfbærni þegar kemur að farsælum rekstri félagsins til langs tíma. 

Helstu áhættur í starfseminni felast í efnahagsumhverfinu og fjármögnun félagsins. Stjórn félagsins hefur samþykkt áhættustefnu sem hefur það að markmiði að uppgötva og greina áhættur, setja viðmið um áhættur og hafa eftirlit með þeim. Félagið mætir helstu áhættum með því að halda sterkri eiginfjár- og lausafjárstöðu ásamt tryggu aðgengi að lánsfjármagni. 

Helstu áhættur sem fylgja fjármálagerningum samstæðunnar eru lánsáhætta, lausafjáráhætta, markaðsáhætta og rekstraráhætta. Sem dæmi um aðgerðir til að sporna við þessari áhættu er rétt samsetning viðskiptamanna, fasteignir á sterkum markaðssvæðum, eiginfjárhlutfall yfir 30%, langtímasamningar um fjármögnun, trygg og stöðug lausafjárstaða, öruggar og opnar lánalínur, viðskiptamenn skili inn tryggingu fyrir leigu og vöktun markaðs- og efnahagsupplýsinga.  

Markmiðið er að tryggja sjálfbært sjóðsstreymi félagsins og lágmarka áhættu í rekstri með áherslu á stöðuga þróun eignasafnsins. Nýta skal fjármagn og mannauð félagsins með sem hagkvæmustum hætti auk þess sem verklag innan félagsins einkennist af góðu viðskiptasiðferði, heilbrigðum viðskiptaháttum og ábyrgð. Þessar áherslur treysta fjárhagslegan styrk Regins til lengri tíma, auka arðsemi og styðja við langtímavöxt. 

Efnahagslegir lykilmælikvarðar 

Reginn hefur skilgreint þrjá lykilmælikvarða efnahagslegrar sjálfbærni í áhættustefnu félagsins og snúa þeir að eiginfjárhlutfalli, arðsemi eigin fjár og skuldahlutfalli.  

Einn af lykilþáttum í áhættustefnu félagsins er að setja mörk og skilyrði á helstu áhættuþætti félagsins. Í því sambandi er fjölgun BREEAM In-use vottaðra eigna í eignasafni félagsins mikilvæg m.a. til að fjölga eignum í grænni fjármögnunarumgjörð félagsins. Reginn hefur gefið út græna umgjörð fyrir útgáfu grænna skuldabréfa og er grænu umgjörðinni ætlað að styðja við fjármögnun á umhverfisvænum verkefnum. Í lok árs var bókfært virði vottaðra eigna undir grænu umgjörðinni 35,5 millj.kr. og græn fjármögnun 31,8  millj.kr. eða 33% af lánasafni félagsins en markmið ársins 2021 var 25%. Félagið hefur sett sér markmið um að helmingur eigna félagsins verði BREEAM In-use vottaðar í lok árs 2025 en í lok árs 2021 var hlutfallið komið í 26%. Með fjölgun vottaðra eigna Regins mun svigrúm til grænnar fjármögnunar félagsins aukast enn frekar.  

Fyrir árið 2021 var markmið stjórnar að eiginfjárhlutfall færi ekki undir 30% og náðist það markmið með 32% hlutfalli. Markmið um arðsemi eiginfjár er að arðsemi sé að jafnaði hærri en 10% og náðist það markmið með 13% arðsemi á árinu.  

Sjá tilvísunartöflu