Almennar fréttir / 29. júní 2017

Samkomulag um sölu á byggingarrétti sunnan Smáralindar

Í dag 29.6.2017 var undirritað samkomulag um gerð kaupsamnings á milli Regins hf. og GAMMA Capital Management hf., fyrir hönd fasteignasjóða í stýringu, um kaup fasteignasjóða GAMMA á 50% hlut í félaginu 201 Miðbær ehf. Með sölunni hefur Reginn selt alla hluti sína í félaginu en mótaðili sjóða GAMMA með eignarhald á 50% hlut, verði af sölunni, verður áfram Smárabyggð ehf. Samkomulag er með ýmsum fyrirvörum m.a. um samþykki stjórnar Regins.

 

Félagið 201 Miðbær ehf. er eigandi byggingarréttar á lóðum 03 og 04 sunnan Smáralindar í hverfinu sem hefur gengið undir nafninu Smárabyggð. Byggingarmagn á lóðunum tveimur er alls 30.622 „brúttó“ íbúðarfermetrar. Söluverð á hlut Regins í félaginu er 1.236 m.kr.

Á síðustu árum hefur Reginn í samstarfi við eigendur Smárabyggðar ehf. og Kópavogsbæ unnið að því að endurskipuleggja nánasta umhverfi sunnan Smáralindar. Tilgangur þess hefur verið að styrkja Smáralind og svæðið í heild sem verslunar og þjónustusvæði sem og koma þar fyrir vönduðu og glæsilegu íbúðarsvæði. Það er mat félagsins að veruleg jákvæð áhrif verða til frambúðar með tilkomu mikillar íbúðabyggðar í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar.

Með sölunni nú á hluta byggingaréttar á svæðinu er verið að innleysa virði sem liggur í byggingarrétti á lóðunum við Smáralind. Það er mat félagsins að nú sé réttur tími til að selja verkefnið af tveimur ástæðum. Mikil eftirspurn er eftir skipulögðum vel staðsettum íbúðabyggðum og nú eru sterkir fagaðilar (fjárfestar og uppbyggingaraðilar) að leita að hentugum byggingarverkefnum sem hægt er að hefja framkvæmdir við fljótt.

Fyrirtæki í eigu fasteignasjóða GAMMA eru á meðal leiðandi aðila á landinu á sviði fasteignaþróunar- og uppbyggingar. Á vegum Upphafs fasteignafélags fer fram uppbygging, í þróun eða framkvæmd, hátt í 2000 íbúða. Heild fasteignafélag hefur umsjón með þróun og uppbyggingu um 150 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði, auk 600-800 íbúða, og Almenna leigufélagið á og leigir út yfir 1200 íbúðir um land allt.

Forsenda þess að selja verkefnið frá Reginn nú er að uppbygging verkefnisins styrki Smáralind og svæðið í heild en Smáralind er verðmætasta eign Regins. Hluti af samkomulagi milli aðila er að tryggja að útfærslur, framkvæmdir og uppbygging verkefnisins verði í sem mestri sátt við starfsemi og athafnarlíf á svæðinu. Einnig er samkomulagið hagfellt Reginn að því leyti að við það flyst álag og áhætta frá félaginu sem óneitanlega fylgir uppbyggingu íbúðarverkefnis sem þessa, en bygging íbúðarhúsnæðis er utan núverandi kjarnastarfsemi Regins.

Með viðskiptunum nú hefur Reginn þó ekki selt frá sér allan byggingarrétt sunnan Smáralindar. Reginn á eftir þessi viðskipti rúmlega 14.000 m2 af byggingarrétti á Smárabyggðar svæðinu, sem er að hluta íbúðarhúsnæði en að mestu atvinnuhúsnæði. Er sá byggingarréttur á lóðum 05, 06 og 07, deiliskipulag liggur fyrir á öllum lóðunum.

Félagið hefur ekki sett sér fastmótaða áætlun hvenær uppbygging á lóðum 05 og 06 fer af stað, en það eru lóðir sem næst eru Smáralind og munu aðgerðir á þeim lóðum hafa mestu tímabundnu áhrifin á flæði og umferðarmál næst Smáralind. Hinsvegar hefur verið hafinn undirbúningur að uppbyggingu bílastæðapalla með allt að 800 bílastæðum norðan við Smáralind sem bæta mun aðgengi að verslanamiðstöðinni enn frekar.

Varðandi staðsetningu og skiptingu lóða, eignarhald og fyrirhuguð bílastæði er vísað til skýringaruppdráttar sem sjá má sjá á eftirfarandi slóð:
http://www.reginn.is/media/1713/smarabyggd-lodir-sunnan-smaralindar.pdf

Virði byggingarréttar svæðisins var fært til bókar hjá Reginn á 870 m.kr. í uppgjöri félagsins 1F 2017.

Nánari upplýsingar veitir:
Helgi S. Gunnarsson
Forstjóri Regins hf.
S: 512 8900 / 899 6262

Annað fréttnæmt

19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.
12. mar.

16 ný hleðslustæði fyrir rafbíla við Smáralind

Nýlega var 16 hleðslustæðum fyrir rafbíla bætt við á bílastæðaplanið sunnan megin við Smáralind. Þessi stæði bætast við þau 16 stæði sem nú þegar má finna norðan megin við húsið.
07. mar.

Aðalfundur 12. mars 2024

Aðalfundur Regins hf. verður haldinn í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, í Kaldalón fundarsal, Austurbakka 2, 101 Reykjavík, þriðjudaginn 12. mars 2024, kl. 16:00.