Almennar fréttir / 18. nóvember 2016

Reginn hf.: Samkomulag um kaup á fasteignafélaginu FM-hús ehf.

Þann 17. nóvember 2016 var undirritað samkomulag á milli Regins hf. (Reginn), Vátryggingafélags Íslands hf. (VÍS) og eigenda fasteignafélagsins FM-hús ehf. (hér eftir „FM-hús“ og „félagið“) um kaup Regins og VÍS á 63,0% hlutafjár í FM-húsum. Eignarhlutur Regins í félaginu verður 47,0% og VÍS mun eignast 16,0% Samkomulagið er með fyrirvörum m.a um áreiðanleikakönnun,  samþykki Samkeppniseftirlitsins o.fl.

Fyrirhuguð kaup á FM-húsum miðast við að heildarvirði (EV) eignasafns félagsins sé 3.750 m.kr. Gert er ráð fyrir að félagið verði nánast skuldlaust við kaupin. Nýir hluthafar í félaginu munu greiða fyrir eignarhluti sína með reiðufé. Arðsemi viðskiptanna (e. yield) er um 7%.

Tilgangur viðskiptanna er að kaupa gott og arðbært eignasafn sem mun að ákveðnum tíma liðnum verða alfarið í eigu Regins. Kaupin eru í samræmi við fjárfestingarstefnu félagsins og þá sýn að fjölga samstarfsverkefnum þar sem einkaaðilar og opinberir aðilar vinna saman að uppbyggingu og rekstri verkefna.

FM-hús er gamalgróið og fjárhagslega sterkt fasteignafélag. Félagið er einkar áhugaverður fjárfestingarkostur m.t.t. leigusamninga, gæða eigna og leigutaka. Fasteignasafnið samanstendur af 5 fasteignum og heildarfermetrafjöldi þeirra er um 10.500 fermetrar. Um er að ræða skólabyggingar að Vesturbrú 7 í Garðabæ, Kríuási 1, Kríuási 2 og Tjarnabraut 30 í Hafnarfirði auk skrifstofu- og atvinnuhúsnæðis að Bæjarhrauni 8 í Hafnarfirði. Útleiguhlutfall fasteignanna er 100%. Leigutakar eru 9 og standa opinberir aðilar, Hafnarfjarðarbær og Garðabær á bak við 90% af leigutekjum fasteignasafnsins og er meðaltími leigusamninga um 10 ár. Í hluta eignanna sinnir leigusali stoðþjónustu sem veitt er leigutaka s.s. ræstingu og þrif á húsnæði, öryggisgæslu, umsjón húsnæðis, lóðar o.fl.

Með fjárfestingu þessari skapast tækifæri til að nýta styrk og getu félagsins til frekari vaxtar. Núverandi og væntanlegir hluthafar FM-húsa telja að eignasamsetning, fjárhagslegur styrkur og fjárhagsskipan félagsins henti vel til frekari fjárfestinga og uppbyggingar á kjarnasviði félagsins. Fyrirhugað er að ráðast strax í frekari fjárfestingar gangi kaupin eftir. Áætlað er að heildarvirði (EV) eignasafns félagsins geti orðið allt að 12 - 15 ma.kr. í lok fjárfestingatímabilsins.

Áætlað er að innan 12 – 18 mánaða eða við lok fjárfestingatímabilsins muni félagið renna inn í samstæðu Regins með kaupum þess á öllu hlutafé FM-húsa.  Fyrirhugað er að endanlegt hluthafasamkomulag milli hluthafa í FM húsum, sem verði undirritað samhliða kaupsamningi, innihaldi ákvæði um að Reginn eigi kauprétt að hlutum annarra hluthafa í félaginu næstu 18 mánuði eftir undirritun kaupsamnings. Ef til slíkra kaupa kemur mun Reginn jafnframt hafa möguleika á að afhenda hlutafé í Reginn sem greiðslu í slíkum viðskiptum.  Slíkt er þó háð samþykki hluthafafundar Regins.

Eftir viðskiptin verða hluthafar FM-húsa, auk Regins og VÍS, Benedikt Rúnar Steingrímsson (18,5%), Magnús Jóhannsson (14,8%) og Særún Garðarsdóttir (3,7%).

Ráðgjafi Regins í viðskiptunum er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.

Nánari upplýsingar veitir:
Helgi S. Gunnarsson
Forstjóri Regins hf.
S: 512 8900 / 899 6262

Annað fréttnæmt

08. jún.

Valfrjálst yfirtökutilboð Regins hf. í Eik fasteignafélag hf.

Stjórn Regins hefur sent tilkynningu í Kauphöll Íslands þar sem tilkynnt var um ákvörðun stjórnar um að lagt verði fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf. Við sjáum fyrir okkur nýja sókn þessara tveggja félaga undir nýju nafni og merki.
07. jún.

Fasteignamat 2024

Fasteignamat eignasafns Regins kemur til með að hækka um 2% milli áranna 2023 og 2024. Atvinnuhúsnæði í heild sinni á landinu hækkar hins vegar um 4,8%.
26. maí

Reginn gefur út nýja græna skuldabréfaflokka

Þann 25. maí 2023 voru gefnir út tveir nýir grænir skuldabréfaflokkar. Báðir flokkarnir eru grænir og eru veðtryggðir undir almenna tryggingarfyrirkomulagi Regins. Með farsælu útboði á þessum tveimur flokkum náðust öll meginmarkmið félagsins og standa meðal verðtryggðir vextir félagsins í um 2,84% í kjölfar útboðsins.