Almennar fréttir / 30. júní 2020

Reginn gefur út græn skuldabréf

Reginn hefur, fyrst íslenskra fasteignafélaga, lokið sölu á grænum skuldabréfum. Reginn verður þar með fyrsti einkaaðilinn og fyrsta félagið skráð á íslenskan hlutabréfamarkað til að gefa út slík bréf.

Skuldabréfaflokkurinn, REGINN50 GB, sem gefinn er út undir útgáfuramma félagsins, er verðtryggður til 30 ára og voru 5 milljarðar að nafnvirði seldir í lokuðu útboði til fagfjárfesta. Skuldabréfin bera 2,477% vexti og voru seld á pari. Áætlaður uppgjörsdagur útgáfunnar er 23. júlí nk. Sótt verður um skráningu skuldabréfanna á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf en fyrirhugað er að flokkurinn verði stækkaður á komandi árum. Fjármunirnir verða nýttir til uppgreiðslu óhagstæðari lána og til að styrkja lausafjárstöðu félagsins.

Kröfur samkvæmt skuldabréfunum eru tryggðar samkvæmt sértæku tryggingarfyrirkomulagi með veði í Hagasmára 1 (Smáralind). Þar til tryggingarbréf flokksins verður komið á fyrsta veðrétt greiðir Reginn 0,5% (50 punkta) vaxtaauka, en Reginn áformar að endurfjármagna aðrar áhvílandi skuldir á næstu sex mánuðum.

Reginn hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á umhverfismál og sjálfbærni í sínum rekstri sem endurspeglast í metnaðarfullri sjálfbærnistefnu félagsins. Tilgangur útgáfunnar er að fjármagna / endurfjármagna umhverfisvænar fjárfestingar, umhverfisvottaðar fasteignir og önnur verkefni sem samræmast umgjörð félagsins um græna fjármögnun (Green Financing Framework).

Lykilþáttur í vegferð Regins í umhverfismálum var alþjóðleg umhverfisvottun Smáralindar í janúar síðastliðnum, en Smáralind er fyrsta fasteignin á Íslandi sem hlýtur hina alþjóðlegu BREEAM In-Use umhverfisvottun. Félagið ætlar sér að vera leiðandi í umhverfisvottun fasteigna, þar sem fylgt er alþjóðlegum kröfum um umhverfisþætti, áhættustýringu og rekstur.

Með tilkomu 70 ma.kr. útgáfuramma 2017 skapaðist tækifæri til að nýta eignasafn félagsins til fjölbreyttrar fjármögnunar sem tekur mið af markaðsaðstæðum á hverjum tíma. Útgáfa grænna skuldabréfa undir útgáfurammanum eykur enn á fjölbreytni í útgáfu félagsins. Í dag er rúmur helmingur lánasafns félagsins uppgreiðanlegur innan árs og gefa kjörin á græna skuldabréfinu, sem eru þau bestu sem Reginn hefur fengið frá upphafi, fyrirheit um lækkun fjármagnskostnaðar félagsins til framtíðar.

Grænu umgjörðina ásamt vottun CICERO má nálgast á vefsíðu Regins á slóðinni https://www.reginn.is/en/investors/green-financing.

Fossar markaðir hf. höfðu umsjón með sölu skuldabréfanna og veittu Reginn ráðgjöf við gerð umgjarðar um græna fjármögnun.

Annað fréttnæmt

19. apr.

Reginn og Hafnatorg eru bakhjarlar HönnunarMars

Reginn og Hafnartorg eru stoltir bakhjarlar HönnunarMars en hátíðin fer fram 3. - 7. maí. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2009 og hefur Reginn verið samstarfsaðili hátíðarinnar síðan 2020.
12. mar.

16 ný hleðslustæði fyrir rafbíla við Smáralind

Nýlega var 16 hleðslustæðum fyrir rafbíla bætt við á bílastæðaplanið sunnan megin við Smáralind. Þessi stæði bætast við þau 16 stæði sem nú þegar má finna norðan megin við húsið.
07. mar.

Aðalfundur 12. mars 2024

Aðalfundur Regins hf. verður haldinn í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, í Kaldalón fundarsal, Austurbakka 2, 101 Reykjavík, þriðjudaginn 12. mars 2024, kl. 16:00.