Almennar fréttir / 21. september 2022

Kaup Regins hf. á hlutafé í Klasa ehf. frágengin

Nýlega var það tilkynnt að kaup Regins hf. á hlutafé í Klasa ehf. væru frágengin. Fela þau viðskipti í sér kaup Regins á nýju hlutafé í Klasa en áður hafði Reginn undirritað viljayfirlýsingu við Haga, Klasa og KLS eignarhaldsfélag, þáverandi eiganda Klasa, um uppbyggingu félagsins.

Eðli og tilgangur viðskiptanna er að Klasi ehf. þrói áfram þær fasteignir og lóðir sem Reginn og Hagar leggja til við kaup á nýju hlutafé í Klasa ehf. Félögin hafa innan eignasafna sinna fjölmörg og umfangsmikil fasteignaþróunarverkefni sem henta betur til þróunar, uppbyggingar og sölu innan sérhæfðs fasteignaþróunarfélags. Aðilar telja að með þessu náist fram aukin verðmæti þróunareigna með þekkingu og reynslu Klasa ehf. á skipulags- og fasteignaþróun.

Með þessum viðskiptum skapast ný tækifæri fyrir Reginn til að styrkja fasteignasafn sitt innan nýrra kjarnasvæða, svo sem á fyrirhuguðum uppbyggingarsvæðum á Borgarhöfða og Mjódd í samræmi við sýn og stefnu félagsins. Ennfremur styrkir þetta og gerir kjarnastarfsemi félagsins einbeittari.

Á meðal markmiða er að leggja áherslu á sjálfbærni, þ.e. umhverfislega, félagslega og efnahagslega, við þróun og uppbyggingu eigna félaganna. Hið sameinaða félag mun geta stutt við fjölbreytta og sjálfbæra borgarþróun, þ.e. blöndu af fjölbreyttu atvinnu- og þjónustuhúsnæði og íbúðum.
Stjórn Klasa ehf. er skipuð sex einstaklingum úr hópi hluthafa og þar á meðal eru f.h. Regins Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins hf. og Dagbjört Erla Einarsdóttir, yfirlögfræðingur Regins hf.

Annað fréttnæmt

08. sep.

Sjálfbærnidagur Landsbankans 2023

Fimmtudaginn 7. september fór Sjálfbærnidagur Landsbankans fram í Grósku. Meðal þeirra sem fóru með erindi á fundinum var Sunna Hrönn Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfbærni og reksturs fasteigna hjá Regin.