Almennar fréttir / 24. ágúst 2016

Árshlutareikningur Regins fyrstu 6 mánuði ársins 2016

Árshlutareikningur Regins fyrstu 6 mánuði ársins 2016.

Árshlutareikningur Regins hf. 1. janúar 2016 til 30. júní 2016 var samþykktur af stjórn þann 24. ágúst.

  • Rekstrartekjur námu 3.222 m.kr.
  • Vöxtur leigutekna frá fyrra ári var 26%.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 2.126 m.kr., og jókst um 25% frá fyrra ári.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna í lok tímabils er 79.015 m.kr. Matsbreyting á tímabilinu var 1.869 m.kr.
  • Hagnaður eftir tekjuskatt nam 2.002 m.kr. sem er aukning yfir 65% frá fyrra ári.
  • Handbært fé frá rekstri nam 924 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 47.767 m.kr. í lok tímabilsins samanborið við 39.474 m.kr. í árslok 2015.
  • Eiginfjárhlutfall er 34%.
  • Hagnaður á hlut fyrir tímabilið er 1,34 en var 0,85 fyrir sama tímabil í fyrra.

Félagið er skráð í Kauphöll Íslands (NASDAQ OMX Iceland hf.), fjöldi hluthafa þann 30 júní sl. voru 559.

Rekstur og afkoma

Afkoma Regins á fyrri helmingi árs var góð og í samræmi við áætlun félagsins. Rekstrartekjur námu 3.222 m.kr. og þar af námu leigutekjur 2.946 m.kr. Hækkun leigutekna frá sama tímabili fyrra árs er rúmlega 26%.

Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 2.126 m.kr. sem samsvarar 25% hækkun samanborið við sama tímabil árið 2015. 

Eignasafn og efnahagur

Eignasafn Regins er fjölbreytt og samanstendur af góðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Fjöldi fasteigna í lok tímabilsins var 130 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 319 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er yfir 97,5% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

Stærstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við gerð ársreiknings sem og í lok hvers uppgjörstímabils. Matsbreyting á fyrstu 6 mánuðum ársins nam 1.869 m.kr.

Stækkun félagsins og horfur

Uppbygging og stækkun eignasafns félagsins er í samræmi við áætlun og fjárfestingarstefnu þess.

Á tímabilinu fékk félagið afhent tvö fasteignasöfn sem greitt var fyrir með ráðstöfun hlutafjáraukningar sbr. ákvörðun hluthafafundar frá 22. mars 2016 þar sem hlutafé í Reginn var aukið um 126.600.000 krónur að nafnverði. Hlutafé í Reginn eftir þá aukningu er 1.555.300.000 krónur að nafnverði. Auk framangreinds þá keypti félagið tvö lítil fasteignafélög sem eiga fasteignir á Akureyri. Bókfært virði þeirra fasteigna sem tilheyra framangreindum fjórum fasteignafélögum er um 11.400 m.kr.

Á tímabilinu tilkynnti félagið um samkomulag við Kópavogsbæ og Smárabyggð ehf. um uppbyggingu sunnan Smáralindar á næstu árum. Aðkoma Regins er með þeim hætti að félagið er eigandi um 34% af byggingarétti verkefnisins í gegnum dótturfélag sitt. Eignarhlutur félagsins í Smárabyggð er færður til bókar sem nemur 805 m.kr. á tímabilinu.

Þann 8. júlí sl. tilkynnti félagið um komu H&M í Smáralind 2017 og Hafnartorg 2018, en það eru fyrstu verslanir H&M á Íslandi. Miklar breytingar eiga sér stað í Smáralind en endurskipulagning hófst í byrjun árs. Verslanasamsetning mun breytast með endurskipulögðum rýmum í húsinu. Í rýmum 1. og 2. hæðar Norðurturns Smáralindar, sem Reginn hefur yfir að ráða, mun Íslandsbanki opna útibú sem og World Class opna líkamsræktarstöð í haust.

Tjarnarvellir 11 hafa verið afhentir Þjóðminjasafninu þar sem er sérútbúin aðstaða fyrir safnið. Framkvæmdir eiga sér einnig stað í Hlíðasmára 1 þar sem Sýslumaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu mun flytja starfsemi sína í haust.

Horfur í rekstri og skipulagsbreytingar félagsins

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar og engar vísbendingar eru um annað en að áætlanir félagsins standist í öllum aðalatriðum.

Áherslur í starfsemi félagsins, fyrir utan hefðbundin rekstrarmál, næstu mánuði er eftirfylgni með endurskipulagningu Smáralindar og uppbyggingu Hafnartorgs í miðbæ Reykjavíkur.

Kynning á félaginu

Samhliða birtingu uppgjörs boðar Reginn til opins kynningarfundar á morgun, fimmtudaginn 25. ágúst, kl. 08:30 í anddyri Norðurturns/Smáralindar, Hagasmára 3, 201 Kópavogi. Helgi S. Gunnarsson forstjóri félagsins mun kynna afkomu fyrstu sex mánaða ársins 2016 og svara spurningum. Skráning á kynningarfundinn fer fram í gegnum netfangið fjarfestatengsl@reginn.is.

Fundinum verður einnig varpað í gegnum netið á eftirfarandi slóð:

http://livestream.com/accounts/11153656/events/6175228/player

Hægt er að nálgast árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða ársins og kynningargögn á www.reginn.is/fjarfestar/

 

Nánari upplýsingar veitir:

Helgi S. Gunnarsson

Forstjóri Regins hf.

Sími: 512 8900 / 899 6262

Annað fréttnæmt

08. jún.

Valfrjálst yfirtökutilboð Regins hf. í Eik fasteignafélag hf.

Stjórn Regins hefur sent tilkynningu í Kauphöll Íslands þar sem tilkynnt var um ákvörðun stjórnar um að lagt verði fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf. Við sjáum fyrir okkur nýja sókn þessara tveggja félaga undir nýju nafni og merki.
07. jún.

Fasteignamat 2024

Fasteignamat eignasafns Regins kemur til með að hækka um 2% milli áranna 2023 og 2024. Atvinnuhúsnæði í heild sinni á landinu hækkar hins vegar um 4,8%.
26. maí

Reginn gefur út nýja græna skuldabréfaflokka

Þann 25. maí 2023 voru gefnir út tveir nýir grænir skuldabréfaflokkar. Báðir flokkarnir eru grænir og eru veðtryggðir undir almenna tryggingarfyrirkomulagi Regins. Með farsælu útboði á þessum tveimur flokkum náðust öll meginmarkmið félagsins og standa meðal verðtryggðir vextir félagsins í um 2,84% í kjölfar útboðsins.