Information policy

Reginn hf. - Upplýsingastefna

Reginn leggur áherslu á opin og trúverðug samskipti við fjárfesta, greiningaraðila, fjölmiðla og aðra hagsmunaaðila þar sem aðilar hafa jafnan aðgang að upplýsingum um félagið.

Markmið

Meginmarkmið upplýsingastefnu Regins er að tryggja jafnan aðgang fjárfesta að upplýsingum um félagið. Einnig að tryggja að hagsmunaaðilar fái réttar, samræmdar og ítarlegar upplýsingar um Regin, þannig að auka megi skilning þeirra og eftir atvikum annarra á rekstri og starfsemi félagsins.

Upplýsingar

Reginn fylgir í hvívetna lögum og reglum sem gilda um upplýsingaskyldu félaga sem skráð eru á aðallista Kauphallar Íslands (Nasdaq OMX á Íslandi).
Fréttatilkynningum félagsins er lúta að upplýsingaskyldu er dreift í gegnum viðurkenndar upplýsingaveitur og eru þær birtar samtímis á evrópska efnahagssvæðinu, auk þess sem þær eru birtar í fréttasafni á heimasíðu Regins.

Samskipti

Reginn heldur fjórum sinnum á ári í kjölfar birtingar árs-, hálfsárs og ársfjórðungsuppgjöra, kynningarfundi fyrir greiningaraðila, fjárfesta, hluthafa og fjölmiðla. Félagið er jafnframt reiðubúið til að funda með áhugasömum fjárfestum og aðilum utan þessara reglulegu funda en þó ekki á skilgreindu þagnartímabili félagsins í tengslum við birtingu uppgjöra.

Samskipti við greiningaraðila

Reginn vill eiga í opnum og góðum samskiptum við greiningaraðila. Sé félagið beðið um að fara yfir drög að greiningu eða öðru efni sem greiningaraðili hyggst birta munu athugasemdir Regins þó takmarkast við eftirfarandi:
• Leiðréttingar á sögulegum upplýsingum.
• Athugasemdir við almenna þætti sem áhrif geta haft á rekstur og starfsemi félagsins.
• Athugasemdir við almennar upplýsingar um markaði og starfsemi.
• Ábendingar um hvar sé hægt að finna tilteknar upplýsingar.

Áætlanir

Til að auðvelda fjárfestum og greiningaraðilum að leggja mat á verðmæti félagsins og framtíðarhorfur birtir Reginn áætlun um framtíðartekjur og afkomu í tengslum við birtingu ársreiknings. Reginn mun ekki tjá sig um spár greiningaraðila eða annarra um félagið.


Álit á viðkvæmum viðskiptaupplýsingum og hreyfingum á verði hlutabréfa

Reginn fylgir þeirri stefnu að tjá sig ekki um breytingar á verði hlutabréfa félagsins eða viðskiptamagni í Kauphöll. Reginn mun ekki tjá sig um orðróm eða getgátur á markaði nema lög eða reglur krefjist.

Þagnartímabil

Reginn tjáir sig ekki um málefni er hafa áhrif á rekstur, afkomu, efnahag og sjóðstreymi félagsins tveimur vikum fyrir lok hvers reikningstímabils og fram að birtingu viðkomandi uppgjörs.

Talsmaður félagsins

Forstjóri félagsins er formlegur talsmaður félagsins. Talsmaður félagsins getur veitt öðrum starfsmönnum Regins tímabundna heimild til að tjá sig um afmarkaða þætti starfseminnar en þá aðeins að fjárfestatengli viðstöddum.
Hluthafar, greiningaraðilar, fjárfestar, fjölmiðlar og aðrir hagsmunaaðilar geta beint fyrirspurnum sínum varðandi Regin til Helga S. Gunnarssonar forstjóra félagsins.
Netfang forstjóra: helgi@reginn.is
Símanúmer forstjóra: 899 6262 / 512-8902.

Þannig samþykkt af stjórn Regins þann 11. maí 2016

Albert Þór Jónsson
Benedikt K. Kristjánsson
Bryndís Hrafnkelsdóttir
Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir
Tómas Kristjánsson