Verkefni ársins
2019

Verslun og þjónusta

 

Alþjóðleg umhverfisvottun Smáralindar

Í desember fékk Smáralind alþjóðlegu umhverfisvottunina BREEAM In-Use með einkunnina „very good“. Smáralind er fyrsta íslenska byggingin sem fær þessa vottun. Vottunin er ávinningur áralangrar vegferðar Smáralindar í átt að umhverfisvænni rekstri auk þess sem vottunin tekur jafnframt út ýmsa áhættuhætti fasteignarinnar. Í sjálfbærnihluta ársskýrslunnar má lesa meira um margvíslegar fjárfestingar Smáralindar sem eru grunnurinn að vottuninni en áþreifanlegur árangur af vegferðinni er lægri orkunotkun og orkukostnaður, aukin flokkun sorps og fjölgun rafbílahleðslna og hjólagrinda. Umhverfisvottun fasteigna er hluti af sjálfbærnimarkmiðum Regins og stefnir Reginn á að helmingur af eignasafni félagsins verði með umhverfisvottun árið 2025.

Smáralind

Eftir miklar fjárfestingar í Smáralind 2015-2019 þar sem búið er að endurnýja um 60% af verslunarrýmum sá fyrir endann á þeirri umbreytingu með opnun á Monki og Weekday í maí sl. en báðar verslanir eru í eigu H&M samstæðunnar.

Áfram var unnið að fjárfestingum sem stuðla að umhverfisvænni rekstri í Smáralind með því að:

  • Halda áfram útskiptingu yfir í LED ljós sem draga úr raforkunotkun.
  • Bæta hússtjórnarkerfi og ljósastýringarkerfi til að draga úr orkunotkun.
  • Fjárfesta í fleiri rafbílahleðslum og hjólagrindum til að styðja við umhverfisvænni samgöngur.
  • Auka sorpflokkun með því að fjölga flokkunarmöguleikum.

Eins og lesa má betur að ofan og í Sjálfbærnihluta ársskýrslunnar hlaut Smáralind alþjóðlega umhverfisvottunina BREEAM In-Use og er það ánægjuleg staðfesting á að græn vegferð Smáralindar er að skila áþreifanlegum árangri.

 

Hafnartorg

Í upphafi ársins 2019 var einungis H&M opnuð en þegar leið á árið opnuðu sjö aðrir rekstraraðilar starfsemi sína. Svæðið er því óðum að taka á sig mynd og á fyrsta ársfjórðungi 2020 munu fjórir rekstraraðilar til viðbótar hefja starfsemi á Hafnartorgi. Þar með eru um 85% af útleigjanlegum fermetrum fyrir verslun, þjónustu og afþreyingu komin í útleigu á Hafnartorgi. Áhersla hefur verið lögð á fjölbreytta rekstraraðila en mesta áherslan hefur þó verið á hágæða tískufatnað sem hefur verið í hvað mestum vexti alþjóðlega sem höfðar bæði til Íslendinga og ferðamanna.

COS, sem er eitt mesta gæðamerki H&M samstæðunnar, opnaði einu verslun sína á Íslandi í lok maí. GK Reykjavík og Collections opnuðu sömuleiðis í sumarbyrjun en þar er að finna hágæða vörumerki eins og Acne, Tiger of Sweden, J. Lindeberg, Filippa K, Paul Smith, Boss, Ralph Lauren og Emporio Armani. Síðsumars opnaði Joe & the Juice vel útfærðan veitingastað og í byrjun september opnaði Optical studio sína þriðju gleraugnaverslun á landinu með frábærri þjónustu á sviði sjónmælinga og fjölbreytt úrval af gleraugnaumgjörðum og sólgleraugum frá öllum þekktustu tískuvörumerkjum heims eins og Gucci, Cartier, Bottega Veneta, Burburry og Ray Ban. Um miðjan september lokaði úra- og skartgripabúðin Michelsen 1909 búð sinni á Laugaveginum til að opna á Hafnartorgi og er sú búð glæsileg með sérstöku Rolex rými sem býður upp á mun fjölbreyttara úrval Rolex úra en áður hefur fengist á Íslandi. Rétt fyrir jól opnaði Gallería Reykjavík glæsilega verslun sem býður upp á fatnað og fylgihluti frá Moncler, Burburry, Lanvin, Valentino og Marc Jacobs.

 

Til viðbótar við þessar hágæða tískuvöruverslanir sem þegar hafa opnað eru frátekin rými fyrir alþjóðleg lúxusvörumerki en koma þeirra til landsins mun tvímælalaust styrkja svæðið enn frekar og setja verslun á Íslandi á nýjan stall.

Samhliða opnun nýrra verslana á Hafnartorgi eru framkvæmdir við Austurhöfn langt komnar og mun stór áfangi nást á árinu þegar Marrit Edition hótelið opnar fyrsta fimm störnu hótel höfuðborgarsvæðisins með 250 herbergjum ásamt tilheyrandi þjónustu. Íbúðir á efri hæðum Austurhafnar eru komnar í sölu og er stefnt að því að Reginn fái jarðhæð Austurhafnar afhenta á næstu mánuðum. Þróun og útfærsla á því svæði er í gangi og er stefnt að því að sterk tenging verði milli Hafnartorgs og Austurhafnar auk þess sem sameiginlegur bílakjallar undir öllu svæðinu ásamt Hörpu mun breyta aðgengi að svæðinu til mikilla muna. Þá miðar framkvæmdum við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans vel.

Þegar öllum þessum umfangsmiklu framkvæmdum verður lokið mun svæðið verða einstakt og mynda afar öflugan miðborgarkjarna með blöndu af verslunar- og þjónusturýmum, skrifstofurýmum, hótelherbergjum, íbúðarhúsnæði og tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu.

Höfðatorg

Árið 2019 var fyrsta heila rekstrarár Katrínartúns 2 (turninn á Höfðatorgi) síðan eignin kom í eignasafn félagsins. Katrínartún er skrifstofuhúsnæði í hæsta gæðaflokki og vara sem félagið hefur haft takmarkaðan aðgang að hingað til. Það háa gæðastig sem einkennir Höfðatorgið er t.d. mikil dagsbirta, aukin lofthæð, góð hljóðvist, gott aðgengi fyrir ólíka hópa, fjöldi aðgengilegra bílastæða sem og loftgæði. Jafnframt skiptir miklu máli að önnur þjónusta sé til staðar fyrir starfsfólk og fyrirtæki sem starfa í húsinu og húsið fellur því vel að markmiðum sem komu fram í stefnumótun.
Á árinu 2019 voru gerðir nýir leigusamningar í um 1/3 hluta turnsins eða um 8.000 fermetra af útleigubærum fermetrum í húsinu. Í upphafi árs lá fyrir að stór leigurými myndu losna á árinu og því ærið verkefni fyrir höndum að koma stórum leigurýmum aftur í notkun. Síðastliðið vor auglýstu Ríkiskaup fyrir hönd Landlæknis eftir húsnæði fyrir embættið og fór svo að Embætti landlæknis flutti inn á 6. hæð turnsins í nóvember. Samningar náðust í haustbyrjun við Kviku banka hf. sem flutti höfuðstöðvar sínar í turninn í áföngum, annars vegar í nóvember og hins vegar desember, nánar tiltekið á 7., 8. og 9. hæð. Einnig gekk vel að leigja út minni rými og nokkrir eldri samningar voru jafnframt endurnýjaðir á árinu.

Seinnihluti ársins einkenndist einnig af framkvæmdum þar sem samtals fjórar hæðir voru endurinnréttaðar fyrir nýja leigutaka og aðrar minni hæðir tóku breytingum. Stigið var fyrsta skref í endurnýjun á hitakerfi og gluggatjöldum samhliða endurinnréttingu hæða. Á árinu voru lögð drög að endurskipulagningu jarðhæðar og munu framkvæmdir við þær hefjast nú í byrjun árs. Fyrirhugað er að bæta tengingar og flæði á milli 1. og 2. hæðar og samhliða virkja nýtingu rýma sem áður tilheyrðu sameign. Þessar aðgerðir miðast við að auka gæði húsnæðisins sem og að stuðla að jákvæðri upplifun þeirra sem dvelja í og heimsækja húsið.

Egilshöll

Starfsemi í Egilshöll blómstraði á árinu en um 1,4 milljónir gesta sóttu Egilshöll heim á síðasta ári. Egilshöll hefur styrkt stöðu sína sem samkomuhús Grafarvogs en stór hluti gesta sem koma í húsið eru börn og ungmenni sem koma til að stunda íþrótt sína. Egilshöll hýsir nú tvo knattspyrnuvelli, skautasvell, fullbúið fimleikahús, alhliða íþróttahús, bardagaíþróttasal, sal fyrir frjálsar íþróttir og æfinga- og keppnisaðstöðu fyrir skotíþróttir. Egilshöll er þó ekki einungis íþróttahús því í húsinu er í boði ýmis afþreying og þjónusta sem gestir geta nýtt sér svo sem keiluhöll, veitingastaður, kvikmyndahús, Hæfi endurhæfingarstöð og World-Class líkamsræktarstöð. Með vel valinni samsetningu leigutaka hefur sú þjónusta og afþreying sem býðst í húsinu náð að styðja við hvor aðra og sameiginleg aðstaða Egilshallar nýst enn betur.

Á árinu 2019 var haldið áfram að aðlaga húsið að fjölbreyttri og aukinni starfsemi. Búningsaðstaða var bætt til muna þegar sex klefar sem ætlaðir eru fyrir iðkendur í fimleikum og fótbolta voru teknir í notkun í kjallara Egilshallar. Að auki var útbúinn tæplega 200 fermetra íþróttasalur í kjallara og bætt við 400 fermetra rými á fyrstu hæð sem ætlað er til útleigu. Aðstaða fyrir frjálsar íþróttir var síðan stækkuð þegar 400 fermetra æfingarými var útbúið í lok árs. Farið var í miklar endurnýjanir á hinum ýmsu öryggiskerfum hússins með það að markmiði að auka öryggi gesta og auka vinnuhagræðingu starfsmanna. Mikið framfaraskref var tekið þegar nýr íshefill fyrir skautasvell var tekinn í notkun í lok árs en sú tækni sem hann býr yfir mun auka gæði svellsins og minnka orkunotkun. Framundan eru fjölmörg verkefni sem munu styrkja stöðu Egilshallar eins og stækkun á Hæfi endurhæfingarstöð sem ætlað er að ljúki á vormánuðum, áframhaldandi endurnýjun húskerfa og endurhönnun rýma á fyrstu hæð hússins. Áfram var unnið að endurskoðun á heildarskipulagi Egilshallar með hagsmunaaðilum á svæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg og Fjölni fyrir starfsemi sem styður undir þá þjónustu sem fyrir er í Egilshöll.

Endurfjármögnun

Eignasafn Regins er í dag tæpir 140 ma.kr. og hefur fimmfaldast frá skráningu félagsins á markað 2012. Fjármögnun félagsins hefur byggst á sértækri fjármögnun einstakra eignasafna í tengslum við kaup þeirra. Vaxtaberandi lán félagsins voru 84 ma.kr. í lok árs og skiptist fjármögnunin nokkuð jafnt á milli banka, verðbréfasjóða og útgáfuramma. Um áramótin voru lánasamningar fyrir 45 ma.kr. með ákvæðum sem heimiliðu uppgreiðslu á árinu 2020. Skapar það félaginu mikil tækifæri til endurfjármögnunar skulda.

Útgáfurammi

Með tilkomu útgáfuramma 2017 skapaðist tækifæri til að nýta eignasafn félagsins til fjölbreyttrar fjármögnunar sem tekur mið af markaðsaðstæðum á hverjum tíma. Árið 2017 gaf félagið út skuldabréfaflokkinn REGINN290547 til 30 ára undir Almennu tryggingarfyrirkomulagi rammans. Árið 2018 gaf félagið síðan út annan 30 ára skuldabréfaflokk REGINN250948 með veði í Sértæku tryggingarfyrirkomulagi utan um eignir sem keyptar voru af FAST-1 slhf.

Árið 2019 stækkaði félagið Almenna tryggingarfyrirkomulagið með því að færa eignir að verðmæti 10 ma.kr. undir fyrirkomulagið. Eftir stækkunina er verðmæti eignasafnsins orðið 21 ma.kr. með eignum sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu og í stórum byggðakjörnum á landsbyggðinni. Samhliða stækkunini voru bankalán að fjárhæð 3 ma.kr. færð undir fyrirkomulagið. Félagið gaf síðan út nýjan 10 ára skuldabréfaflokk REGINN280130 með veði í Almenna tryggingarfyrirkomulaginu. Voru seld skuldabréf fyrir 1.520 m.kr. á árvöxtunarkröfunni 2,75%.

Græn fjármögnun

Félagið hefur sett sér markmið um sjálfbærni. Meðal markmiða félagsins er að verða leiðandi í umhverfisvottun fasteigna, þar sem fylgt er alþjóðlegum kröfum um umhverfisþætti, áhættustýringu og rekstur. Nú þegar Smáralind hefur fengið alþjóðlega BREEAM In-use vottun sem gerir hana gjaldgenga fyrir umhverfisvæna fjármögnun. Á grundvelli þeirrar vottunar undirbýr félagið nú að gefa út grænan skuldabréfaflokk undir útgáfurammanum á fyrri hluta árs 2020.